Svæðið á Skildinganesmelum (Melunum) var lengi aðalíþróttasvæði Reykvíkinga og um tíma voru þar fjórir Íþróttavellir á litlu landsvæði (sjá kort). Íþróttasamband Reykjavíkur, ÍSR, var stofnað 12. september 1910 og var tilgangur sambandsins (félaganna í Reykjavík) að gera íþróttavöll á Melunum í tilefni 100 ára afmælis frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar, Íþróttavöll Reykjavíkur (ÍVR). Ólafur Björnsson, ritstjóri og formaður framkvæmdanefndar vallarins, vígði völlinn 11. júní 1911. Það var Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar bæjarstjóri Reykjavíkur, sem teiknaði völlinn og gerði kostnaðaráætlun, sem stóðst.
Þess má geta til gamans að Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar, faðir Ólafs, var aðalhvatamaður á gerð gömlu sundlauganna í Laugarnesi.
Gamli völlurinn á Melunum var síðan fyrir framtíðarskipulagi Reykjavíkur; framlengingu Hringbrautarinnar, en norðurhorn vallarins stóð um 15 m frá horni kirkjugarðsins við Suðurgötu. Hætt var að nota völlinn sem keppnisvöll 1925, en hann nýttur sem æfingavöllur fram til mitt sumars 1942, að hann var lagður niður. Hringbrautin var breikkuð og íbúðahús byggð á honum, eins og blokkirnar við Hringbraut, vestan Birkimels.
Reykjavíkurbær lét gera nýjan keppnisvöll, Melavöllinn, sem Valgeir Björnsson, bæjarverkfræðingur, teiknaði. Knud Zimsen, bæjarstjóri, vígði völlinn 17. júní 1926. Sá völlur var meðfram Suðurgötunni.