Knud Zimsen, bæjarstjóri Reykjavíkur, hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði í vígsluræðu sinni þegar Melavöllurinn var vígður 17. júní 1926, að bæjarstjórn Reykjavíkur ætlaðist til að á vellinum ætti æskulýður og íþróttamenn örugg heimkynni. Æska Reykjavíkur sóttist fljótlega eftir að fá inni á vellinum við leik og skemmtun og í rauninni má segja að Melavöllurinn hafi í áratugi verið helsti og mesti samkomustaður í Reykjavík. Þar fóru ekki aðeins fram keppni og kappleikir með lúðrablæstri á Melavellinum, heldur stunduðu flest Reykjavíkurfélögin og einstaklingar reglulegar æfingar þar. Völlurinn var iðandi af mannlífi allan ársins hring; þegar ekki var hægt að stunda sumaríþróttir á vellinum yfir vetrartímann – völlurinn lokaður frá nóvember til apríl, var oft líf og fjör á vellinum, þegar boðið var upp á skautasvell. Fólk á öllum aldri mætti þangað með skautana sína og lék listir sínar á upplýstu skautasvelli undir ljúfri tónlist frá kl. 14 til 22.30.
Melavöllurinn var ekki aðeins knattspyrnu- og frjálsíþróttavöllur. Á vellinum fóru fram fimleikasýningar á þar til gerðum pöllum, sem settir voru upp við hátíðleg tækifæri, og glímusýningar. 17. júní hátíðarhöld með íþróttakeppni fóru fram á vellinum allt þar til að Laugardalsvöllurinn tók við. Margoft voru 12-14. þúsund manns sem sóttu þau hátíðarhöld og aðrar útihátíðar á vellinum. Á vallarsvæðinu voru nokkrir tennisvellir, handknattleiksvöllur til æfinga og ísknattleiksvöllur.
Þegar von var á hvað mestum mannfjölda þá var gripið til þess ráðs að drengir seldu aðgöngumiða í miðbæ Reykjavíkur og á götum fyrir framan völlinn. Þetta var gert til að koma í veg fyrir troðning við miðasölulúgur og inngang.
Íþróttabandalag Reykjavíkur, ÍBR, tók við vellinum þegar hann var vígður og var þá skipuð vallarstjórn, sem var skipuð tveimur mönnum frá ÍBR og einum bæjarfulltrúa úr bæjarstjórn Reykjavíkur. Vallarstjórnin kallaði síðan til vallarverði, þegar við átti.
Þegnskylduvinna!
Þá var lengi vel treyst á að íþróttamennirnir sjálfir, sem æfðu og léku á Melavellinum, aðstoðu við að koma vellinum í viðunandi ástand fyrir keppnistímabil. Það má sjá á þessari klausu í Morgunblaðinu í apríl 1928:
"Íþróttamenn! Munið þegnskylduvinnuna kl. 19.30 í kvöld á íþróttavellinum. Æfingar geta ekki byrjað fyrr en búið er að hreinsa og lagfæra völlinn. Hafið verkfæri með ykkur, þeir sem geta. Vallarstjórnin."
Nýbyggð stúka fauk
Miklar skemmdir urðu á girðingu Melavallarins í öflugu roki í janúar 1930. Vesturgirðingin fauk á 18 metra svæði. Þá hófust miklar endurbætur á vellinum á vegum bæjarstjórnar og var byggð 260 manna stúka með sætum á þeim kafla sem girðingin fauk. Það þótti löngu tímabært að koma upp stúku, til að vel færi um áhorfendur og aðsókn myndi aukast að vellinum. Það var rætt um að lengja stúkuna og bæta við sætum á hverju ári, þar til öll vesturhliðin væri yfirbyggð með sætum. Einnig var borinn salli ofan í knattspyrnuvöllinn og var það afar mikil bót á vellinum. Þá var girðingin í kringum vallarsvæðið endurbætt og máluð. Hlaupabrautir voru lagfærðar, og margt annað gert honum til bóta. Völlurinn var í góðu lagi þegar Alþingishátíðarmótið fór fram 17. júní.
Rúmu ári eftir að stúkan var byggð, fauk hún út af vellinum í óveðri í nóvember 1931 og nokkur hluti af girðingu vallarins. Til að bjarga stúkunni undan frekari skemmdum boðaði ÍSÍ alla íþróttamenn til þegnskaparvinnu kl. 10 að morgni sunnudagsins 22. nóvember. „Er þess fastlega vænst, að allir iþróttamenn mæti, svo hægt verði að koma stúkunni inn á völlinn aftur, áður en veður fer að spillast. íþróttamenn! Munið að margar hendur vinna létt verk, og mætið stundvíslega.“
Ákveðið var í desember 1932 að ÍBR tæki að sér að kanna framkvæmdir við skautasvell á Melavellinum, en það reyndist erfitt að halda svelli við á vellinum veturinn 1932-1933, vegna hlíinda.
Þegar Kristján X konungur og Alexandrine, drottning, komu í heimsókn til Íslands 1936, var búið að byggja heiðursstúku við suðurhlið stúku vallarins.
Þurftu að borga sig inn á æfingar!
Þegar Bretar hertóku Ísland 1940 bitnaði koma þeirra á tennis. Þeir yfirtóku öll íþróttahús og settu upp eina af herbúðum við suðurenda Melavallarins. Þannig lokaðist fyrir inngöngu inn á völlinn í suðurendanum, þar sem tennisleikarar fóru inn til æfinga. Þeir máttu ekki fara í gegnum búðirnar. Þeir þurftu því að fara inn um aðalinngang vallarins og þurftu oft að borga fyrir að fara inn á völlinn, þegar knattspyrnuleikir fóru fram; þó svo að þeir væru ekki að fara að horfa á kappleiki, heldur eingöngu að æfa tennis.
1940 voru verulegar bætur gerðar á Melavellinum. Holræsi voru gerð í kringum knattspyrnuvöllinn og hann stækkaður lítilega, til að hleypa niður vatni. Grassvæði voru gerð fyrir frjálsíþróttamenn, nýtísku hlaupabrautir voru lagðar; til að æfa á. Hvað eftir annað voru gerðar tilraunir að bæta völlinn, sem var oft erfitt vegna jarðvegs, sem þjappaðist saman og við það mynduðust pollar á vellinum. Þegar ringdi mikið átti vatn erfitt að komast niður í holræsi.
Áhorfendastæði voru þá löguð stórlega báðumegin vallarins, svo það voru 5 raðir austanverðu vallarins og 7 raðir að vestanverðu, fjölgað um tvær. Við það skapaðist ágætt útsýni fyrir þúsundir áhorfenda.
Það var mikil bylting þegar gashitun var sett í sambandi við vatnið. Þar gátu fjórir baðað sig, ef snarlega var gengið, fyrir 25-eyring, sem settur var í gassjálfsala!
Benedikt Jakobsson, leikfimiskennari, var ráðgjafi bæjarins þegar endurbætur voru gerðar á hlaupabrautum. Benedikt var síðan ráðinn, 1944, sérstakur íþróttaráðunautur og umsjónarmaður með framkvæmdum íþróttamannvirkja í Reykjavík.
Endurbætur á Melavellinum
1946 voru gerðar miklar endurbætur á Melavellinum og var það gert sérstaklega fyrir fyrsta landsleik Íslendinga, gegn Dönum 17. júlí. Sett voru upp ný stæði fyrir sjö til átta þúsund manns, völlurinn sjálfur var hækkaður mikið og holræsi sett í kringum hann allan, til að koma vatni fljótt frá vellinum. Þá var stúkan stækkuð og endurbætt.
500 bílhlössum af sandbornum leir innan úr Blesugróf var keyrt ofan í völlinn, en síðan voru 300 bílhlössum af salla sett á völlinn og eftir það sléttað úr undirlaginu. Völlurinn var hækkaður um hálfan metra á miðjunni og lækkaði uppfyllingin síðan út til beggja hliða, þannig að vatn rann af honum.
Nýja stúkan tók um 600 manns og við hlið hennar var byggður skáli. Úr honum var landsleiknum útvarpað beint til Danmerkur. Þá voru gerðar miklar lagfæringar á búningaklefum og nýjum böðum, með heitu og köldu vatni komið þar fyrir.
Páll ráðinn vallarstjóri
Í byrjun árs 1947 var ákveðið að fastráða vallarstjóra til að sjá um daglega stjórn með Melavellinum. Áður hafði vallarvörður haft eftirlit með vellinum, og var það starf ekki sem aðalstarf. Pétur W. Biering var ráðinn.
Undir stjórn Páls var ákveðið í byrjun ársins 1948 að gera meiri endurbætur á vellinum. Bæta við einum búningsklefa, þannig að þeir yrðu fjórir. Aðstaða við böð endurbætt og hreinlætistæki aukin. Steypuböðum var fjölgað og útbúnar voru 14 kerlaugar, en aðeins ein laug var til afnota áður. Þá var komið upp nýjum hreinlætisklefum fyrir gesti vallarsins.
Betra skipulagi var komið á sölu aðgöngumiða, með því að hafa tvær aðgöngumiðasölur.
Olle Ekberg, sem var umsjónamaður með öllum íþróttamannvirkjum í Stokkhólmi, lét ýmsar góðar ábendingar í ljós í sambandi við breytingarnar. Ekberg var hér á landi, í fríi, til að þjálfa frjálsíþróttamenn og undirbúa þá fyrir ÓL í London 1948.
Ekberg tók á móti Páli þegar hann fór til Stokkhólms og Óslóar til að kynna sér íþróttamannvirki í október 1948. Hann heimsótti einnig Frode Rinnan, sem teiknaðI Holmenkoll-skíðastökkpallinn og Bislett-frjálsíþróttaleikvanginn fræga í Ólsló.
Frábær aðstaða – vantaði tæki
Aðstaðan var frábær á Melavellinum um sumarið 1948, en þá sóttu hátt í annað hundrað íþróttamenn, yngri og eldri, völlin daglega til að æfa. Frjálsíþróttamenn voru allt að 80 við æfingar og vel það. Það var líf og fjör í hverju horni vallarins. Völlurinn hafði aldrei verið eins góður, en það var mál manna að hlaupabrautir mætti bæta.
Það var eitt sem skyggði á. Melavöllurinn var mjög illa búinn að íþróttatækjum. Ekkert svar hafði borist við umsókn um gjaldeyri til kaupa á tækjum. Völlurinn átti engan fótbolta um tíma, ekkert spjót og ýmis önnur íþróttatæki vantaði. Ólympíunefnd Íslands og íþróttafélögin hlupu þá undir bagga og lánuðu knetti og tæki.
Um sumarið 1948 bættist nýr völlur við, sem létti mikið af álagi á Melavellinum. Það var Háskólavöllurinn, sem var fyrir austan Gamla Garð, en hann er nú er bílastæði Háskóla Íslands. Völlurinn bætti mjög aðstöðu knattspyrnumanna til æfinga. Það var hægt að æfa knattspyrnu á vellinum þegar frjálsíþróttamót fóru fram á Melavellinum.
Vildu breyta Melavellinum í grasvöll
1948 fóru fram athugun á þeim möguleika að breyta Melarvellinum í grasvöll. Miklar umræður fóru í gang og voru íþróttamenn alfarið á móti breyingum; þær myndu skaða allt íþróttalíf í Reykjavík og á landinu. Á milli 50-60 knattspyrnuleikir í mótum fóru fram á vellinum á ári og um 25 frjálsíþróttadagar voru þar.
Með því að gera Melavöllinn að grasvelli, yrði völlurinn aðeins notaður nokkrum sinnum á ári, í staðin fyrir að æfingar hófust á honum í mars; keppni var frá apríl fram í október.
Þessar grashugmyndir voru flautaðar af í byrjun árs 1949.
Eins og umferðamiðstöð
Pétur W. Biering veiktist 1950 og tók Baldur Jónsson þá við starfi hans sem vallarstjóri um stundarsakir. Baldur tók síðan við starfi Péturs, og síðar varð hann einnig vallarstjóri Laugardalsvallarins.
Melavöllurinn undir stjórn Baldurs, var hálfgerð umferðamiðstöð. Það fóru fram keppnir í hinum fjölmörgu íþróttagreinum, allt frá tennis upp í glímu.
Þar var aðstaða fyrir lækna að skoða íþróttamenn, og þar var hægt að fara í sjúkranudd á Melavellinum.
Opnuð var Gufu-baðstofa 1951, sem náði þó ekki nægilegum vinsældum.
1952 var vallarklukka keypt frá Noregi og voru leikmenn og áhorfendur ánægðir með hana; gátu séð hvað tímanum leið í leikjum.
Þá voru sjö áhorfendateljarar teknir í notkun við inngönguhlið vallarins. Landsmiðjan smíðaði teljarana.
Það var alltaf góð stemning á Melavellinum og þeir sem ólu upp manninn þar, muna eftir líflegum söludrengjum. Það var ekki reyklaus stúka á Melavellinum. Sölustrákar gengu með kassa framan á maganum og hópuðu: Sælgæti, sígarettur og vindlar! Aðrir strákar seldu ís úr kælikössum.
Gunnar Guðmannsson og Anna S. Guðmundsdóttir kona hans sáu um veitingasölu út um lúgur á söluskúr um árabil. Þar var hægt að fá sér kaffi, gosdrykki, sælgæti og pylsur. Nunni var ekki að flækja hlutina mikið. Það var aðeins boðið upp á sinnep á pylsurnar.
Tilraun var gerð með Félags- og tómstundarheimili fyrir unglina 1952, sem var opið þrjú kvöld í viku kl. 17-22. Heimilið varð mjög vinsælt og var lesið og teflt í einum búningsklefa, en leikið borðtennis í öðrum klefa. Boðið var einnig upp á fundaraðstöðu fyrir félagasamtök.
Þegar Íslandsmótið hófst 1954 mættu dómarar til leiks í nýjum dómarabúningi. Knattspyrnudómarafélag Reykjavíkur, KDR, festi kaup á þremur æfingabúningum og einum dómarabúningi til afnota fyrir félaga KDR. Ekki nóg með það, heldur var keyptur skápur til að geyma búningana í. Skápurinn var naglfestur í dómaraherberginu á Melavellinum og læstur. Þessi nýbreytni var vel þegin af félögum KDR, sem mættu alltaf til leiks í tandurhreinum og vel pressuðum fötum.
Baldur og undirmenn hans sáu ekki aðeins um Melavöllinn og síðar Laugardalsvöllinn; þeir sáu einnig um alla keppnisvelli félaganna, slá grasvelli, slétta úr og merkja malarvelli fyrir kappleiki, og sáu um að netin væru í lagi í mörkunum, fyrir leiki.
Melavöllurinn var lengi vel varavöllur Laugardalsvallarins, eftir að hann var tekinn í notkun 1957.
Fyrstu fullkomnu flóðljósin á Íslandi tekin í notkun 1971 á Melavellinum.
Síðasta rósin í hnappagat Melavallarins var 1975, þegar 4.091 áhorfendur sáu leik ÍA og Dinamo Kiev, Sovétríkin, í Evrópukeppni meistaraliða, 0:2. Leikið var í nóvember, í flóðljósum.
Síðasti leikurinn á Íslandsmótinu í knattspyrnu, í efstu deild karla, fór fram á Melavellinum 21. maí 1981. KA vann KR 1:0 og skoraði Hinrik Þórhallsson síðasta markið á vellinum. Þá voru liðin 55 ár síðan Helgi Eiríksson, Víkingi, skoraði fyrsta markið í leik gegn Val, 4:1. Alls voru skoruð 1.425 mörk í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn á Melavellinum. Þá voru liðin 32 ár síðan pabbi Hinriks, Þórhallur Einarsson, skoraði á vellinum, 1949; einnig gegn KR (með Fram 2:2), en Þórhallur lék fyrsta landsleikinn sem fór fram á vellinum; gegn Dönum 1946.
Baldur sá eftir Melavellinum
Baldur lét af störfum og fór á eftirlaun 1987. Baldur sá alltaf eftir Melavellinum. Hann kom aldrei inn á Melavallarsvæðið eftir að hann lokaði vellinum á gamlársdag 1984. Hann sagði eitt sinn í viðtali: „Ég verð að viðurkenna það að ég hef ekki haft skap í mér til að koma inn á Melavöllinn. Ég tek nóg út við að þurfa að keyra fram hjá honum tvisvar á dag – ég bý í Skerjafirði.“