Guðrún Nielsen, leikfimiskennari og stjórnandi, gengur hér inn á Melavöllinn með úrvalsflokk sinn úr Ármanni, sem sýnd oft á vellinum leikfimi undir píanóleik. Flokkurinn var geysilega vinsæll.

Melavöllurinn 1926-1984

Það var mikið um dýrðir þegar nýr íþróttavöllurinn á melunum, Melavöllurinn, var vígður 17. júní 1926, þegar Allsherjarmót Íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, fór fram. Knud Zimsen, bæjarstjóri í Reykjavík, vígði völlinn, sem Valgeir Björnsson, bæjarverkfræðingur hafði teiknað. Zimsen sagði að bæjarstjórn Reykjavíkur ætlaðist til að á vellinum ætti æskulýður og íþróttamenn örugg heimkynni.

Þá setti forseti ÍSÍ, Axel V. Tulinius, Allsherjarmótið, og þakkaði bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir framkvæmdir hennar og rausn, hvað völlinn snerti. Sagði að bæjarstjórnin ætti skilið þakkir allra íþróttaelskenda. Axel sagði að völlurinn væri glæsilegur og ætti eftir að verða betri er hann yrði fullgerður.

Völlurinn, sem var 102x68 metrar eins og gamli völlurinn (Íþróttavöllur Reykjavíkur), var og með sömu áhorfendapöllum og verið höfðu á gamla vellinum. Hlaupabrautir voru umhverfis völlinn

Við rifjum hér upp nokkra hlestu viðburði á Melavellinum, sem var vagga fjölmargra íþróttagreina, þó að knattspyrna og frjálsíþróttir hafa verið aðalíþróttagreinar vallarins. 17. júní hátíðarhöld með íþróttakeppni fóru árlega fram á vellinum allt þar til að Laugardalsvöllurinn tók við. Síðustu hátíðarhöldin á Melavellinum voru 1960.

Glæsilegar fimleikasýningar kvenna og karla á pöllum á miðjum vellinum voru vinsælar í áraraðir. Á vallarsvæðinu voru tennisvellir, ísknattleiksvöllur, æfingasvæði fyrir kastgreinar og stökk í frjálsíþróttum. Á sjálfum knattspyrnuvellinum var um tíma vinsælt skautasvell á veturna.

  • 1926
    Hér má sjá nær heilsíðu auglýsingu á forsíðu Alþýðublaðsins 16. júlí 1926, um opnun Melavallarins. Það var boðið upp á dans um kvöldið á vellinum!
    Hér má sjá nær heilsíðu auglýsingu á forsíðu Alþýðublaðsins 16. júlí 1926, um opnun Melavallarins. Það var boðið upp á dans um kvöldið á vellinum!

    Fyrsta Íslandsmetið í frjálsíþróttum á Melavellinum setti Garðar S. Gíslason, ÍR, er hann hljóp 100 m á 11.04 sek. á Allsherjarmótinu (Meistaramóti ÍSÍ) 18. júní 1926. Garðar var fyrsti Íslendingurinn til að hlaupa vegalengdina á innan við 12 sek., en gamla metið var 12 sek. sléttar, sem Tryggvi Gunnarsson, Ármanni, Þorkell Þorkelsson, Ármanni og Kristján L. Gestsson, KR, áttu.

    Sigurður Greipsson, Ungmennafélagi Biskupstungna Haukadal í Árnessýslu, vann fyrstu Íslandsglímuna sem fór fram á Melavellinum (14. júlí 1926) og tryggði sér Grettisbeltið fimmta árið í röð, 1922-1926. Hann hætti síðan keppni – ósigraður! Sigurður lagði flesta keppendur sína með sínum lúmska hælkrók!

    Helgi Eiríksson, Víkingi, var fyrstur til að skora mark í knattspyrnukappleik á Melavellinum; í leik gegn Val á Íslandsmótinu 24. júní 1926, 4:1.

    KR-ingar urðu fyrstir (1926) til að fagna Íslandsmeistaratitli á Melavellinum.

  • 1927

    Fyrsti tenniskappleikirnirn fór fram á Melavellinum 4. september 1927. Bæjarstjórn Reykjavíkur hafði látið gera tvo tennisvelli í suðausturenda á vallarsvæðinu. KR hélt þá innanfélagsmót fyrir karla. Margeir Sigurjónsson vann Sigurjón Pétursson, knattspyrnumarkvörð í KR, í úrslitarimmu. KR hélt síðan mót fyrir konur 13. september. Sigurvegari varð Sigríður Símonardóttir.

    ÍR-ingar héldu opið mót 11. september. Átta keppendur tóku þátt í mótinu og varð danskur maður, Carlo Jensen, sigurvegari með því að leggja landa sinn, Ströjberg, að velli í úrslitaleik, 3:0.

  • 1928

    ÍSÍ auglýsti eftir keppendum, körlum og konum, á fyrsta Íslandsmótinu í tennis, sem fór fram á Melavellinum 17. september 1928. ÍR sá um mótið. Gísli Sigurbjörnsson frá Ási, sem keppti fyrir Víking, fagnaði sigri á mótinu og varð þar með fyrsti Íslandsmeistarinn í tennis. Gísli, sem lagði Ströjberg í undanúrslitum 2:0, lék síðan til úrslita gegn Hallgrími F. Hallgrímssyni, ÍR og stóð spennandi viðureign þeirra yfir í röska tvo tíma. Gísli vann með þremur settum gegn tveimur (6:3, 4:6, 6:4, 4:6, 8:6).

    Benedigt G. Waage, forseti ÍSÍ, afhenti Gísla silfurbikar sem Þorsteinn Scheving Thorsteinsson, lyfsali, gaf og fylgdi honum sæmdarheitið „Tennismeistari Íslands“. Engin kona skráði sig til leiks.

  • 1929

    Fjórar konur tilkynntu þátttöku í fyrsta Íslandsmóti kvenna í tennis, sem fór fram á Melavellinum 1. september 1929; Arndís Kjaran, Þóra Garðarsdóttir, Klara Helgadóttir og Sigríður Símonardóttir. Klara, ÍR, fagnaði sigri og fékk titilinn: „Kventennismeistari Íslands.“

  • 1930

    Áramótagleði fór fram á Melavellinum á gamárskvöld eða þrettándanum, á vegum Fram 1930-1940; Álfabrenna og flugeldasýning. Glæsilegasta brennan var þrettándabrennan 1936, en þá hófst hátíðin með hljómleikum lúðrasveitarinnar Svans á Austurvelli. Þaðan var gengið fylgtu liði Suðurgötuna að Melavellinum, þar sem 36 manna karlakór söng, 30 álfar sungu og dönsuðu undir stjórn álfakóngsins Péturs Jónssonar, óperusöngvara. Flugeldasýningin var glæsileg. Rúmlega fjögur þúsund manns voru inni á vellinum og hundruðir manna fyrir utan hann, auk þess sem flugeldasýningin sást út um allan

  • 1931

    Opnað var Víðvarp (Útvarpsstöð) á Melavellinum 1931, sem vakti mikla athygli. Á kappleikjum var víðvarpað hljómleikum á meðan kappleikir fóru fram og tókst það ágætlega. Gamanmál voru í leikhléi. Íslendingar voru fyrstir Norðurlandaþjóða, sem tóku upp þetta menningartæki á íþróttavelli. Erlendur Ó. Pétursson var útvarpsstjóri.

  • 1935

    Fyrsta útvarpslýsing frá íþróttaviðburði hjá ríkisútvarpinu, RÚV, fór fram frá Melavellinum 1935, þegar lýst var beint frá úrslitaviðureign KR og Vals. KR-ingum dugði jafntefli til að verða Íslandsmeistari. Það gekk ekki eftir; Valur vann 1:0 og varð meistari. Rúmlega 3 þús. áhorfendur sáu leikinn, en 25 þúsund hlustuðu á lýsinguna, eða 22% þjóðarinnar. Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, og Pétur Sigurðsson, formaður Knattspyrnuráðs Reykjavíkur, KRR, lýstu leiknum.

    ÍSÍ lét kvikmynda leikinn.

  • 1936
    Sveinn G. Sveinsson, Íslandsmeistari í meðalþungavigt, á hér í höggi við Halldór Björnsson. Reidar Sörensen, dómari, fylgist með.
    Sveinn G. Sveinsson, Íslandsmeistari í meðalþungavigt, á hér í höggi við Halldór Björnsson. Reidar Sörensen, dómari, fylgist með.

    Fyrsta Íslandsmótið í hnefaleikum fór fram á Melavellinum 7. júní 1936. Fyrstu Íslandsmeistararnir voru:

    Fluguvigt: Alfreð Gíslason, Ármanni.
    Millivigt: Stefán Bjarnason, KR.
    Léttvigt: Hallgrímur Helgason, KR.
    Meðalþungavigt: Sveinn G. Sveinsson, Ármanni.
    Léttþungavigt: Ingvar Ingvarsson, KR.
    Þungavigt: Vilhjálmur Guðmundsson, KR.

    Um 10.000 áhorfendur voru samankomnir á Melavellinum 18. júní 1936, þegar Kristján X konungur mætti á völlinn ásamt drottningu sinni, Alexandrine, en þau voru hér á landi í fjórða sinn. Tæplega var rúm fyrir fleiri áhorfendur á vellinum, sem urðu vitni af vel skipulagðri skrúðgöngu. Aldrei fyrr hafði svo glæsileg ganga sést hér á landi, enda létu konungur, drottning og fylgdarlið þeirra hrifningu sína í ljós. Það þótti sjálfsagt að konungur, verndari ÍSÍ, væri viðstaddur þegar Allsherjarmót ÍSÍ var sett. Sjá nánar hér.

  • 1941

    Fyrsta Íslandsmótið í handknattleik utanhúss, fór fram á Melavellinum í byrjun júlí 1941. Aðeins þrjú lið sendu lið til keppni í kvennaflokki. Þór á Akureyri kom skemmtilega á óvart og tryggði sér Íslandsmeistatilinn 8. júlí með því að leggja Ármann að velli, 2:1, en áður hafði Þór fagnað sigri á ÍBV, 2:1. ÍBV vann Ármann í þriðja leiknum, 2:1. Þórsstúlkurnar voru sterkar og röskar, sýndu allgóðan samleik og skotfimi.

  • 1946
    Reykjavíkurúrvarlið sem lagði Dani að velli, 4:1. Myndin er tekin í búningsklefa Melavallarins. Aftari röð frá vinstri: Freddie Steel, þjálfari, Þórhallur Einarson, Birgir Guðjónsson, Sveinn Helgason, Haukur Óskarsson, Jón Jónasson, Albert Guðmundsson og Murdo McDougall, aðstoðarþjálfari. Fremri röð: Sigurður Ólafsson, Hafsteinn Guðmundsson, Anton Sigurðsson, Ellert Sölvason og Kristján Ólafsson.
    Reykjavíkurúrvarlið sem lagði Dani að velli, 4:1. Myndin er tekin í búningsklefa Melavallarins. Aftari röð frá vinstri: Freddie Steel, þjálfari, Þórhallur Einarson, Birgir Guðjónsson, Sveinn Helgason, Haukur Óskarsson, Jón Jónasson, Albert Guðmundsson og Murdo McDougall, aðstoðarþjálfari. Fremri röð: Sigurður Ólafsson, Hafsteinn Guðmundsson, Anton Sigurðsson, Ellert Sölvason og Kristján Ólafsson.

    Fyrsti landsleikurinn á Íslandi í knattspyrnu fór fram á Melavellinum 17. júlí 1946; Ísland - Danmörk 0:3. Miklar lagfæringar voru gerðar á Melavellinum fyrir leikinn og var mikil stemning fyrir hann. Englendingurinn Freddie Steele sá um undirbúning landsliðsins, sem var í æfingabúðum upp við Kolviðarhól tíu dögum fyrir leikinn.

    Reykjavíkurúrvalið lék gegn Dönum eftir landsleikinn og fagnaði fræknum sigri, 4:1. Albert Guðmundsson skoraði tvö mörk, en Haukur Óskarsson og Ellert Sölvason eitt hvor.

    „Frjálsíþróttavorið“ var hafið á fullum þunga. Fram komu m.a. Gunnar Huseby, Evrópumeistari í kúluvarpi í Ósló 1946 og í Brussel 1950. Torfi  Bryngeirsson, Evrópumeistari í langstökki í Brussel 1950, tvíburarnir Haukur og Örn Clausen. Örn varð í tólfta sæti í tugþraut á Ólympíuleikunum í London 1948, þá aðeins nítján ára að aldri, 1949 varð hann Norðurlandameistari í Stokkhólmi og fékk silfur á EM 1950 og setti Norðurlandamet í sömu grein 1951. Það ár átti hann næstbesta tugþrautarárangur í heimi. Finnbjörn Þorvaldsson náði sínum hátindi 1949 með því að verða Norðurlandameistari í 100 og 200 metra hlaupum í Stokkhólmi. Haukur varð Norðurlandameistari í 200 m hlaupi 1947 - 18 ára, og átti besta tíma (21,3 sek.) í Evrópu í 200 m hlaupi 1950, sem var Norðurlandamet í 7 ár og Íslandsmet í 27 ár.

  • 1947

    Svíinn Olle Ekberg átti mikinn þátt í frjálsíþróttauppsveiflunni, en hann kom til Íslands 1947-1948 og þjálfaði stóran hóp frjálsíþróttamanna, sem höfðu sett stefnuna á ÓL í London 1948.

  • 1948
    Fyrsta landskeppni Íslands í frjálsíþróttum; gegn Dönum. Haukur Clausen setti nýtt Íslandsmet í 100 m hlaupi, 10,6 sek. Á eftir honum komu Peter Bloch (10,8), Henry Johansen (11,0) og Örn Clausen á 10,8 sek.
    Fyrsta landskeppni Íslands í frjálsíþróttum; gegn Dönum. Haukur Clausen setti nýtt Íslandsmet í 100 m hlaupi, 10,6 sek. Á eftir honum komu Peter Bloch (10,8), Henry Johansen (11,0) og Örn Clausen á 10,8 sek.

    Fyrsta landskeppni Íslands í frjálsíþróttum fór fram á Melavellinum 26.-27. júní 1948. Norðmenn komu í heimsókn og fögnuðu sigri, 92:73. Haukur Clausen, sem setti Íslandsmet í 110 m grindahlaupi (15,3 sek.) og 100 m hlaupi (10,6 sek.), varð stigahæstur með 18,5 stig. Finnbjörn Þorvaldsson setti Íslandsmet í langstökki; 7,16 m og þá setti íslenska sveitin í 1.000 m boðhlaupi, met.

    Fyrsti landsleikjasigur Íslands í knattspyrnu var á Melavellinum 2. júlí 1948, gegn Finnum 2:0. 7.000 áhorfendur sáu Ríkharð Jónsson skora bæði mörkin á 84. og 87. mín. Um miðjan júní var Íslandsmótinu frestað, þannig að landsliðið fengi góðan tíma til að undirbúa sig fyrir leikinn.

    Fyrsta Íslandsmót í handknattleik karla utanhúss fór fram á Melavellinum 10. til 12. júlí 1948. Þrjú lið tóku þátt í mótinu; Ármann, ÍR og FH. Ármenningar með Kjartan Magnússon, lækni, og Jón Erlendsson, sem aðalmenn, unnu stórsigra á ÍR 13:9 og FH 13:6 og tryggðu sér Íslandsmeistaratitlinn. FH lagði ÍR að velli, 6:4.

  • 1950
    Handknattleikslandsliðið sem lék gegn Finnum, 3:3. Aftari röð frá vinstri: Sigurhans Hjartarson, Magnús Þórarinsson, Valur Benediktsson, Þorleifur Einarsson og Sigurður G. Norðdahl. Fremri röð: Orri Gunnarsson, Sveinn Helgason, Sólmundur Jónsson, Birgir Þorgilsson og Kristján Oddsson.
    Handknattleikslandsliðið sem lék gegn Finnum, 3:3. Aftari röð frá vinstri: Sigurhans Hjartarson, Magnús Þórarinsson, Valur Benediktsson, Þorleifur Einarsson og Sigurður G. Norðdahl. Fremri röð: Orri Gunnarsson, Sveinn Helgason, Sólmundur Jónsson, Birgir Þorgilsson og Kristján Oddsson.

    Fyrsti landsleikurinn í handknattleik á Íslandi, fór fram á Melavellinum 23. maí 1950; gegn Finnum 3:3. Leikið var við erfiðar aðstæður, í roki og rigningu. Valur Benediktsson skoraði fyrsta mark Íslands og þeir Birgir Þorgilsson og Orri Gunnarsson skoruðu hin mörkin. Aðrir sem léku voru Sigurhans Hjartarson, Magnús Þórarinsson, Þorleifur Einarsson, Sigurður G. Nordahl, Sveinn Helgason, Sólmundur Jónsson og Kristján Oddsson. Þjálfarar voru Halldór Erlendsson og Grímar Jónsson.

    Mesta spretthlaup Íslandssögunnar fór fram á Melavellinum 17. júní 1950; í 200 metra hlaupi. Þess má geta að Finnbjörn Þorvaldsson, Norðurlandameistari í 100 og 200 m (21,7 sek.) hlaupum var frá vegna meiðsla. Fjórir hlauparar röðuðu sér í einu og sama hlaupinu á meðal bestu manna Evrópu í 200 metra hlaupi: Hörður Haraldsson 21,5 sek., Haukur Clausen 21,6 sek., Ásmundur Bjarnason 21,7 sek. og Guðmundur Lárusson 21,8 sek.  Hörður tognaði illa skömmu síðar og Haukur keppti heldur ekki á EM í Brussel. Ef þeir hefðu verið með er hugsanlegt að þeir hefðu bitist um  gullið. Haukur fór á eftir EM til Svíþjóðar og náði þar besta tímanum sem náðist það ár í 200 metra hlaupi í Evrópu, 21,3 sek., sem var Norðurlandamet! Fyrstu þrír hlaupararnir á EM hlupu á 21,5 sek., 21,8 og  22,1 sek.

    Fyrsti heimsmeistarinn til að heimsækja Ísland var Bandaríkjamaðurinn Robert Mathias, 19 ára, sem setti glæsilegt heimsmet í tugþraut (8.027 stig) stuttu áður en hann kom til að taka þátt í nokkrum greinum á Meistaramótinu 14.-15. ágúst. Upphaflega var fyrirhugað að hann myndi taka þátt í „tugþrautaeinvígi“ við Örn Clausen, ÍR, en ekkert varð úr því vegna Meistaramótsins.  Báðir hlupu þeir Örn og Mathias 110 m grindahlaup á 15,3 sek. Hann stökk síðan jafn hátt og Sigurður Friðfinnsson, FH, í hástökki, 1.75 m. Gunnar Huseby, KR, kastaði kúlunni 15.96 m, Mathias 13.77 m. Gunnar kastaði kringlu 47.29 m, Mathias 44.96 m. Torfi Bryngeirsson, KR, stökk 4.15 m í stangarstökki, Mathias 3.40 m.

  • 1951
    Ignace Heinrich og Örn Clausen á Melavellinum
    Ignace Heinrich og Örn Clausen á Melavellinum

    Sögulegur sigur í landsleik í knattspyrnu gegn Svíum 29. júní, 4:3. Ríkharður Jónsson skoraði öll mörkin. „Við vissum ekki hvað hættulegur þessi náungi (Ríkharður Jónsson) var,“ mátti lesa í Morgon-Tidingen og einn varnarmaður Svía sagði: „Jónssyni var ómöglegt að halda.“ Ríkharður var sagður einn af sterkustu innherjum Evrópu. Einar Halldórsson, miðvörður úr Val, sagði við Rikka eftir leikinn: „Þakka þér fyrir að leifa okkur að vera með!“

    Fyrsti sigur Íslands í frjálsíþróttum á Íslandi var 3.-4. júlí 1951. Þá unnu Íslendingar óvæntan en verðskuldaðan sigur á Dönum 108:90. Danir sögðu að það væri aðdáunarvert, hvernig Íslendingar hefðu tekist að komast í fremstu röð íþróttaþjóða Evrópu. Þeir ættu stóran hóp frábærra einstaklinga.

    Í júlí 1951 fór fram tvímælalaust mesta íþróttaeinvígi sem hefur verið háð á Íslandi; mesti íþróttaviðburður og harðasta keppni sem hefur verið háð á Melavellinum. Það var tugþrautareinvígi Evrópumeistarans Ignace Heinrich frá Frakklandi og Norðurlandameistarans Arnars Clausen, sem varð annar á EM í Brussel 1950. Einvígið vakti heimsathygli. Um 5.000 áhorfendur sáu Heinrich fagna naumum sigri (með 23 stigum). Hann setti franskt met, 7.476 stig, en Örn setti Íslands- og Norðurlandamet, 7.453 stig.

  • 1952
    Jón Sigurðsson, formaður KSÍ, er búinn að afhenta Herði Óskarssyni, fyrirliða KR, Íslandsbikarinn. Strákarnir með hvítu húfurnar, seldu sælgæti á Melavellinum.
    Jón Sigurðsson, formaður KSÍ, er búinn að afhenta Herði Óskarssyni, fyrirliða KR, Íslandsbikarinn. Strákarnir með hvítu húfurnar, seldu sælgæti á Melavellinum.

    KR-ingar urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu á Melavellinum.

  • 1956
    Reykjavíkurúrvalið frá vinstri: Ólafur Gíslason, Sigurður Bergsson, Gunnar Gunnarsson, Haukur Bjarnason, Eiður Dalberg, Árni Njálsson, Reynir Karlsson, Carl Bergmann, Gunnar Guðmannsson, Ólafur Eiríksson og Einar Halldórsson. Dómaratríó: Guðbjörn Jónsson, Guðjón Einarsson og Magnús V. Pétursson.
    Reykjavíkurúrvalið frá vinstri: Ólafur Gíslason, Sigurður Bergsson, Gunnar Gunnarsson, Haukur Bjarnason, Eiður Dalberg, Árni Njálsson, Reynir Karlsson, Carl Bergmann, Gunnar Guðmannsson, Ólafur Eiríksson og Einar Halldórsson. Dómaratríó: Guðbjörn Jónsson, Guðjón Einarsson og Magnús V. Pétursson.

    Reykjavíkurúrvalið í knattspyrnu lék gegn Lokomotif Moskva árið 1956 og beið lægri hlut 0:4.

  • 1958
    Hér er forsíðufrétt Vísi 8. febrúar 1958, um svellið.
    Hér er forsíðufrétt Vísi 8. febrúar 1958, um skautasvellið á Melavellinum.

    Það þótti saga til næsta bæjar þegar KR lagði enska atvinnumannaliðsins Bury 1958 á Melavellinum 4. júní 1958. Þá sáu menn að slagorðið; Allt getur gerst í knattspyrnu var ekki búið til út í bláinn!

    Þúsundir manna urðu vitni að því að KR-ingar nýttu sitt eina skot á marki; Ellert B. Schram, sem dugði til sigurs, 1:0. Leikurinn fór fram í 85 mín. á vallarhelmingi KR. Það var Heimir Guðjónsson sem bjargaði sínum mönnum frá stórtapi, með snilldarmarkvörslur.

    Skautasvellið á Melavellinum var vinsælt og meðal annars fjallað um vinsældir þess í blöðunum.

  • 1968

    Fyrsti ísknattleiksleikurinn í Reykjavík fór fram 6. janúar í suðurenda Melavallarsvæðisins (á 60x27 m velli); Reykjavík - Akureyri, 2:9. Skúli Ágústsson skoraði öll mörk Akureyringa.

  • 1971

    Fyrsti íþróttaviðburðurinn sem fór fram í fullkomnum flóðljósum á Íslandi, var á Melavellinum 24. september 1971. Þá mættust í knattspyrnuleik "Pressan" og Reykjavíkurúrval, 4:1.

  • 1975

    Síðasta rósin í hnappagat Melavallarins var þegar 4.091 áhorfendur sáu leik ÍA og Dinamo Kiev í Evrópukeppni meistaraliða, 5. nóvember 1975, 0:2. Hér var um að ræða síðasta stórleikinn á Melavellinum, sem var þá varavöllur Laugardalsvallarins. Ekki var hægt að leika á grasi í Laugardal um vetur.

  • 1979

    „Dagur hestsins“ var haldinn hátíðlegur á Melavellinum 20. maí 1979. Rúmlega 3.000 áhorfendur mættu á glæsilega sýningu, sem stóð yfir í tvo tíma. Sýndir voru flestir bestu stóðhestar landsins, mörg fræg góðhross og þeim riðu flestir kunnustu knapar landsins. Hópur unglinga sýndi einnig hesta sína.

    Fyrsti „krikket“-leikurinn á Íslandi fór fram 20. október 1979. Fjörutíu breskir krikketleikarar komu þá til landsins til að vera viðstaddir brúðkaup Peter Salmon og Ólafar Guðmundsdóttur. Baldur Jónsson, vallarstjóri, lét leggja mottur á völlinn. Leikurinn stóð yfir í fjórar klukkustundir og var mikil stemning.

  • 1982

    Rokktónleikar, Melarokk, voru haldnir 28. ágúst 1982. 15 hljómsveitir stigu á svið fyrir framan um 1.600 áhorfendur. Meðal hljómsveita voru Baraflokkurinn, Bandóðir, Vonbrigði, Pungó og Daisy, Lola, Grýlurnar, Purrkur Pillnikk, þar sem Einar Örn Benediktsson söng, og Tappi Tíkarrass, þar sem Björk Guðmundsdóttir sá um sönginn.

  • 1984

    Melavellinum var formlega lokað af Baldri Jónssyni, vallarstjóra 31. desember, þegar hann lokaði skrifstofu sinni og voru vallarhúsin rifin 1985. Þá var Þjóðarbókhlaðan risin í vest-norðurhorni vallarins og síðan var stór hluti vallarins tekin undir bílastæði.