Þróttur 1920 - Um knattspyrnumenn og þá karlmannlegu íþrótt Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Mynd af íslendingum og A.B. mönnum sem tóku þátt í úrslitaleiknum:

Frá vinstri til hægri. Efri röð: Chr. Bonde, L. Frederiksen, Friðþj. Thorsteinsson, A. Nyeborg, Kr. Gestsson, G. Schram, Magnús Guðbrandsson, H. Scharff, Sam. Thorsteinsson, G. Aaby, Óskar Norðmann, R. Hansen, Ernst Petersen, H. Kierulff, H. Bendixen, P. Graae, E. Schwartz (merkjavörður). Í neðri röð: Stefán Ólafsson, Gísli Pálsson, Pétur Sigurðsson, Páll Andrésson, Tryggvi Magnússon og F. Rosborg.

Knattspyrnan
 
Enginn neitar því að knattspyrnan sé bæði karlmannleg íþrótt og drengileg. Hefir henni og aukist meira fylgi og það á sér skemri tíma en dæmi eru til um nokkra aðra íþrótt sem hér er iðkuð. Munu margir fagna því og telja það vel farið; því ágæti þessarar líkamsíþróttar kemur bezt fram í góðum félagsskap og samleik hinna ellefu leikmanna um leið og séreinkenni hvers leikmanns sézt glögglega og fær að njóta sín.
Knattspyrnan, glæðir öðrum íþróttum fremur samtök og félagsskap en á því er hin mesta þörf hér þar sem svo erfitt er að fá menn til þess að verða samtaka og vinna að ákveðnu marki.
Til þess að flýta fyrir því að við gætum sem fyrst náð, sem mestum þroska í þessari flokkaíþrótt, var sú leið farin af stjórn Í.S.Í., að fá hingað erlenda knattspyrnumenn til þess að keppa við og læra af þeim listina. Er nú í næsta mánuði liðið ár, síðan að hið velþekta danska knattspyrnufélag – Akademisk Boldklub – var hér.
 
Eins og við var búist fór A.B., með frægan sigur af hólmi; vann fjóra kappleika af fimm. Mátti á þessum leikslokum sjá, að einn þá eigum við langt í land, að standa erlendum- fyrsta flokks knattspyrnumönnum á sporði, og að: enn sé eigi tími til kominn að senda héðan knattspyrnusveit til að keppa við aðrar þjóðir, - og auka með því frægð vora.
En þó að við færum svona halloka á þessu móti við A.B., þá er Þróttur í engum vafa um það, að það verði knattspyrnumenn, sem fyrst verða sendir héðan til þess að keppa við aðrar þjóðir og sýna að við séum – að minsta kosti – enn þá vel liðtækir. En hvenær sem það verður, fer eftir þeim sjálfum. – Það fer eftir því hvað mikið þeir vilja leggja í sölurnar. Hvað vel þeir vilja æfa sig og herða. Bezt er að byrja sem fyrst að stefna að því marki og lifa á íþróttavísu. En það verður bezt gert með því að knattspyrnumenn vorir sæki allar æfingar og lifi reglulega. Enginn verður afburða-íþróttamaður án áreynslu og sjálfsafneitunar. Er því sjálfsagt að láta alla reglusemi sitja í fyrirrúmi. Óreglumaðurinn verður aldrei eins þolinn og siegur við líkamsæfingar, eins og reglumaðurinn, þó hann kunni að fá miklu áorkað í bili. 
 
Menn hafa sagt að knattspyrnumenn vorir hafi verið of gæfir, er þeir þreyttu við A.B. og að það hafi ráðið úrslitum. Má vel vera að svo hafi verið, víst er um það að slælega gengu þeir fram í síðari úrslita-leiknum, er við töpuðum með 7 mörkum á móti 2. Fyrri úrslitalekinn unnum við með 4 : 1.
Með góðri æfingu, hefði úrvalslið vort átt að geta borið sigur úr bítum við þessa sveit A.B., - því í henni voru eð eins fimm afburðamenn. Eigi var hægt að sjá að í liði voru vantaði orku og þol á við A.B., en samtök og kunnáttu að fara með knöttinn. En það gerði gæfumuninn. Oft var knettinum spyrnt athugunarlaust – eitthvað út í bláinn. Og þó að hér hafi síðan verið haldin mörg mót og merkileg, einkum í Reykjavík, þá er ekki enn þá hægt að sjá að við leggjum þá alúð við æfingar, sem nauðsynleg er, til þess að verða afbragðsmenn í knattspyrnu. – 
Eru hér þó þær leiðbeiningar og tilsögn fyrir hendi, sem ónuminn er enn. Mun þó að því reka að við verðum að fá þjálfkennara í þessari íþrótt, sem öðrum, þegar hinn rétti áhugi er kominn og menn fara að vita, til hvers þeir eru að æfa. 
 
Knattspyrnumenn vorir eru margir ótrauðir áhlaupamenn og snarhuga; líka eru hér góðir kollspyrnumenn. En fyr en við eignumst góða knattreka, skotmenn og skilamenn, verður eigi hugsað til stærri afreka eða utanfarar.
Það, sem knattspyrnumenn vorir verða að leggja mesta stund á, er að læra að reka knöttinn; hlaupa með hann á tánum og spyrna honum síðan rétta leið – og að ákveðnu marki. – Æfa stuttspyrnur og langspyrnur. Læra að skjóta á markið á rásinni, en hætta að stoppa knöttinn fyrir framan markið, áður en skotið er. Ekki er að búast við að hér verði góðir markverðir, fyr en framherjar hafa tamið sér þetta. Þá þarf einnig að æfa sérstaka vítaspyrnumenn, ríður á að þeir séu eigi færri en tveir í hvoru liði, því vítaspyrna getur oft ráðið úrslitum leiksins.
Æfingar ættu altaf að fara fram á vel mörkuðum velli, og undir stjórn dómara. Knattspyrnumenn!  Munið að “það verður hverjum list, sem hann leikur”, og að æfingin skapar íþróttamanninn, og ekkert annað, hversu gott sem upplagið er.