Þróttur 1920 - Melavöllur 10 ára Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst

Eftirfarandi grein, undirrituð af „áhugamanni“ birtist í 2.-3. tölublaði Þróttar árið 1920, í tilefni af 10 ára afmæli Íþróttavallarins á Melunum:

Íþróttavöllurinn 10 ára


Vér efumst eigi um það, að í sögu íslenzkra íþrótta muni dagsins 12. sept, ávalt verða minst sem eins hins bjartasta og sigurríkasta dags, sem yfir vora íslensku íþróttamóðir hefir komið.

Og bjart hlýtur ávalt að verða yfir nöfnum þeirra manna er þann dag fyrir 10 árum síðan, tóku saman höndum að vinna að því mikla og þarfa verki að koma upp Íþróttavelli í höfuðborg Íslands. Íþróttavöllur er hyrningarsteinn í þeirri hugsjón að endurnýja íþróttalíf þjóðarinnar og gjöra hana aftur að forvígisþjóð á því sviði. En jafnframt er hann líka hið sýnilega merki þess hve stórhugi og vilji getur miklu áorkað.

Á 10 ára afmæli sínu er völlurinn skuldlaus. Slíkt hefur auðvitað ekki orðið fyrirhafnarlaust. Á bak við það liggur mikið erfiði og einlæg samtök íþróttamanna höfðstaðarins. –
Stjórn vallarins mintist afmælisdagsins á þann hátt, að hún bauð til veizlu í kaffihúsi Nýja Bíós, stjórnum þeirra félaga, sem í sambandinu eru, ásamt fyrstu stjórn vallarins og helstu forgöngumanna hans. Enfremur form. Í.S.Í. og form. K.R.Í.

Undir borðum voru margar ræður haldnar. Talaði framkv.stjóri A.V. Tuliníus form. Í.S.Í.; fyrir minni Íþróttavallarins. Form. Vallarins Erlendur Pétursson svaraði með ræðu fyrir minni form. Í.S.Í.; enfremur hélt hann ræðu fyrir minni Íslands. Þá töluðu þau Jón Þorláksson verkfræðingur og Sigríður Björnsdóttir kaupkona.
Að samsætinu loknu fór stjórn vallarins ásamt gestum hennar með blómsveig á leiði Ólafs sál. Björnssonar ritstjóra, sem verið hafði fyrsti form. vallarins og forgöngumaður fyrirtækisins. Um leið og form. vallarins lagði blómsveiginn á leiðið, mintist hann hins látna einlæga vinar íslenzkra íþróttamanna og starfa hans í þarfir Íþróttavallarins, íþróttamálanna og íslenzku þjóðarinnar. Á meðan athöfnin fór fram stóðu allir berhöfðaðir.

Seinna um daginn sendi stjórn vallarins Sigurjóni Péturssyni glímukappa, sem staddur er í Grimsby svo hljóðandi símskeyti:

 “Íþróttasamband Reykjavíkur, sendir þér í dag á 10 ára afmæli sínu hugheilustu þakkir fyrir mikið og heillaríkt starf, unnið því til blessunar og sigurs.”.

Stjórn vallarins hyggur á miklar endurbætur á Íþróttavellinum, og vonar að geta gert þær á næstu 2 árum. – Er skylda allra Reykvískra íþróttamanna að styðja stjórnina í því verki.

Áhugamaður

(Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Einkaskjalasafn nr. 111, askja 5.)