Skautaferð á Melavelli 1975 Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst

Þegar yngsta dóttir mín Erla Huld að nafni var 5 ára, árið 1975, ók ég henni úr Kópavogi daglega, að vetri til í Ísaksskóla. Eitt sinn þegar skóla lauk um hádegisbil fórum við saman upp á Melavöll, en á þess tímabili hafði verið langvarandi frost. Þá hafði Melavellinum verið breytt í hið ágætasta skautasvell, með því að láta vatn renna inn á hann.

Ég var nú enginn snillingur á skautum, en taldi mig vera svona sæmilega færan í þessari íþróttagrein. Lét ég dóttur mína setjast á bekk, þar sem hún hafði ekki skauta meðferðis, og ætlaði ég að sýna henni hvað pabbi væri flinkur á skautum. Ég reimaði á mig skautana og hóf sýninguna með miklum tilþrifum og þeystist ég fram og aftur, sem endaði samt með ömurlegum hætti, því þegar ég ætlaði að taka snúning á töluverðum hraða, rak ég tána í svellið með þeim afleiðingum að ég hófst í loft upp og endaði í slæmri magalendingu, sem varð til þess að ég braut í mér tvö rifbein. Ekki reyndi ég að sýna svona kúnstir oftar.

En þetta með skautasvellið var snjöll hugmynd hjá stjórnendum Melavallarins og margir nutu þess að hafa þarna ágætis aðstöðu til skautaiðkana.

Sigurður Friðfinnsson