Þróttur 1918 - Ræða Guðmundar Finnbogasonar um íþróttamenn Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Í 4. tölublaði fréttabréfsins Þróttar árið 1918 birtist eftirfarandi ræða sem Guðmundur Finnbogason flutti á Íþróttavellinum á Melunum við 17. júní hátíðahöld það ár:

Íþróttamenn


Þegar stjórn Íþróttasambands Reykjavíkur bað mig að mæla hér nokkur orð í dag, þá staðnæmdist hugur minn við fyrsta orðið í nafni sambandsins – við orðið íþrótt. Málfræðingar segja, að það sé runnið af tveim orðum: íð og þrótt. Íð er sama og iðja og af þeirri rót er iðinn. En þróttur táknar kraft, þrek eða þol. Hvers konar list eða leikni, andleg og líkamleg, hét áður íþrótt. Orðið ber höfundi sínum vitni, að hæfileikarnir glæðast þegar þeim er kappsamlega beint að settu marki. Íþrótt er afl lífs og sálar þroskað af iðkun. Máltæki letingjans er, að sofandi gefi guð sínum. En eitt gefur guð aldrei sínum sofandi og það er: íþrótt. Enginn íþrótt fæst nema fyrir vöku og starf. Vér sjáum það fljótt, ef vér íhugum hvað það er, sem greinir íþróttamenn frá öðrum mönnum.

Ef vér lítum á þá, sem engum dettur í hug að kalla ´þróttamenn, þá er það einkenni þeirra, að þeim fer ekkert fram, þeir verða með hverjum deginum leiknari í list sinni eða starfi, unz hámarkinu er náð. Ástæðan er sú, að þeir eru hættir að seilast lengra en þeir ná, hættir að reyna að yfirstíga sjálfa sig, en það er fyrsta skilyrði vaxandi leikni og þroska, andlegs og líkamlegs. Flestir menn hafa reynt að “kyssa kóngsdóttur” og vita, að það er erfitt, og fæstir geta sveigt sig svo langt aftur á bak, að höfuðið nemi við hæla. Ég man hve hissa ég varð, einu sinni fyrir mörgum árum, að sjá núverandi formann Íþróttasambands Íslands standa upp úr sæti sínu inni í stofu og setja höfuðið við hælana. Mér varð beinlínis hverft við, því ég get ekki einu sinni “kyst kóngsdóttur”. Ég spurði hann hvernig í ósköpunum hann, sá stóri og þrekni maður gæti þetta. Hann sagðist hafa iðkað það frá barnæsku. Við hin þykjumst flest góð, ef við göngum sæmilega bein, en þetta má með tímanum sveigja hrygginn, ef maður iðkar það nógu lengi og reynir hvern dag að teygja sig lengra aftur en deginum áður. Og gætum vel að þessu, að hugurinn verður alt af að fara fyrir, ef líkaminn á að fylgja. Það teygir sig enginn lengra en hann ætlar. “Það stekkur enginn lengra en hann hugsar,” eins og Jóhannes Jósefsson glímukappi sagði einu sinni við mig. Andinn temur líkamann. Líkaminn á að vera auðmjúkur þjónn og verkfæri andans og gera möglunarlaust það sem honum er skipað. Sé hann ekki frá öndverðu vaninn á að hlýða, þá verður hann áður en varir hortugur kenjaklápur, sem svíkst um og tekur til sinna ráða. Snemma á dögum kristninnar var trúarflokkur uppi sem haft er eftir, að “holdið verðskuldi enga vægð”. Hann skýrði það nú á þá leið, að réttast væri að gefa fýsnum hans lausan tauminn og lofa honum að ganga sig til húðarinnar. Það var eflaust misskilningur. En ef vér skiljum setninguna eins og beinast liggur fyrir, að líkaminn eigi vægðarlaust að hlýða boðum sálarinnar og gerum hins vegar ráð fyrir að heilbrigð sál sé húsbóndinn þá mætti vel skrifa þessa setningu á skjöld hvers íþróttafélags.

Æðsta hugsjón hvers íþróttamanns er sjálfsvald, þ.e. að geta það sem hann vill geta. Íþróttamaður er sá sem setur sér hæsta mark í sinni grein og nær því með elju og áreynslu. Þess vegna fer hverjum sönnum íþróttamanni alt af fram, því að hugurinn ber hann hálfa leið, unz þroskaskeiðið er á enda og ellin tekur í taumana. Hann gerir sér að orðtaki vísu Longfellows:

Hvorki lán né hrygðar – hagur
heitir takmark lífs um skeið
heldur það, að hver einn dagur
hrífi oss lengra fram á leið.

Þegar litið er á það sem nú er oftast talið til íþrótta, sem sé alls konar kappleikar, þá má vera að sumum finnist einkennilegt að leggja svo mikla stund á slíkt og hafa það í heiðri. En aðsókn áhorfenda að slíkum leikum ´synir, að þeir slá á strengi í flestra brjósti. Og það sem dregur menn að þeim, mun fyrst og fremst vera það, að menn vilja sjá hvað íþróttamennirnir geta. Menn viðurkenna þannig, að íþróttamennirnir eru mælikvarði þess hvað takast má í þeim greinum er þeir stunda. Íþróttamenn eru forustumenn á sviði hæfileikanna. Þeir fara á undan og sýna með dæmi sínu, að þangað, sem þeir hafa náð, má ná. En hið fegursta í fari íþróttamannsins er það, að hann sækist eftir fullkomnun sjálfrar hennar vegna. Það er hans, eins og barnsins:

kaupið hæsta að heimta í
hverju verki: að orka því

Gleðin yfir því að geta eru æðstu laun hans. En eins og stundum endrar nær, þá fer svo hér, að með því að sækja að réttu marki fær maður annað og meira en maður hafði beinlínis sózt eftir. Um leið og íþróttamaðurinn temur sér list sína, verður líkami hans æ hlýðnara og þolnara verkfæri sálarinnar og fær á sig þann tignarsvip sem fylgir fullkomnu samstarfi sálar og líkama.

Sendið þið tvo menn af stað í gönguför eða til aflrauna, annan sem aldrei hreyfir sig nema þegar hann þarf húsa á milli, en hinn úr hóp okkar ungu íþróttamanna. Þið vitið fyrirfram hvor betur re[y]nist. Þá sést, að ungu mennirnir, sem virtust vera að eyða kröftum sínum í óþörf hlaup og spark, stökk og stympingar hér úti á Íþróttavelli, þeir hafa verið að safna sér orkuforða, sem þeir eiga tiltækan hvenær sem þörfin kallar. Náttúran er stórgjöful við þá, sem sjálfir gefa báðum höndum, en naum við nirfilinn, sem ekki þorir að taka á því sem hann hefir.

Þess vegna heilsa ég okkar ungu íþróttamönnum og tjái þeim þökk fyrir það sem þeir leggja á sig til að verða sem fullkomnastir hver í sinni íþrótt. Þeir gera það sem við öll ættum að gera, hver á sínu sviði, að leita fullkomnunar sjálfrar hennar vegna og öðlast þar með heilbrigðustu gleðina, þá að “finna hitann í sjálfum sér og sjálfs síns kraft til að standa mót”, gleðina af að vaxa og verða hæfari til þess sem af manni á að heimta. – Ég vildi óska, að hugsunarháttur íþróttamannsins yrði sem fyrst almennur á öllum sviðum lífsins, að hvert starf sem stundað er yrði að íþrótt sem kept væri um að verða fremstur í og komast þangað sem enginn komst áður. Yrði það að áhrínsorðum, þá mundi þjóð vor brátt verða ein merkasta þjóð heimsins, því hún hefði tekið í þá taugina, sem leiðir upp á hæstu hæðir. Skáldið kveður um Jón Sigurðsson, sem þessi dagur er helgaður:

Bratta vanur, brekkusækinn.
Brjóst hann gerðist fyrir þjóð.

Íþróttamaðurinn er brekkusækinn. Hann leitar jafnan i þá áttina sem örðugust er. Á því vex honum brekkumegin, þorið og þrekið. Lifi brekkusæknin. Lifi og blómgist allar íþróttir á Íslandi!


Guðm. Finnbogason