Minningar Jóns Þ. Ólafssonar hástökkvara Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst

Frjálsíþróttamaðurinn Jón Þ. Ólafsson var á hátindi ferils síns á 7. áratugnum. Hástökkið var hans aðalgrein, en hann átti Íslandsmetið frá 1962 (2,11 m), þar til það var bætt um einn sentimetra árið 1984.

Jón var vitanlega fastagestur á Melavellinum og þaðan kann hann margar skemmtilegar sögur.

 

Í Í.R. blaðinu í febrúar 1998 deildi hann nokkrum minningum með lesendum og birtast þær nú hér:

 

Minningar frá Melavellinum - Hástökk á malbiki, sandhrúgum stolið

 


Það var á fallegum vordegi í apríl 1963 að ég fór út á Melavöll á fyrstu útiæfinguna það árið. Veðrið var frábært, um 10 stiga hiti og hár bærðist ekki á höfði. Einn galli var þó á gjöf Njarðar. Sólbráð var á öllu vallarsvæðinu. Það var eitt drullusvað og merkti í mölina og sullaði í undan hverju spori. Var því allt útlit fyrir að dagurinn endaði sem baðdagur. Það var þó sárabót að fá ef til vill góðar sögur frá eldri félögum í heita pottinum. Sjaldan vantaði þar fjörið og sögurnar. Skyndilega fékk ég hugmynd. Reynandi væri að fara út á gamla aflagða grófmalbikaða tennisvelli syðst á vellinum. Þar mætti reyna að stökkva þó engar væru þar sandgryfjurnar eða dýnurnar til að lenda í. Ég dreif mig í æfingagallann og út úr áhaldaskúrnum dröslaði ég á eftir mér stökksúlum og bambusrá til að stökkva yfir.

 

Ég var eins og kálfur á vordegi og var óvenju fljótur að hita upp. Síðan skellti ég ránni í 1,60 og byrjaði að stökkva. Ég stökk venjulega á svökölluðum „grúfustíl“, þ.e. fór yfir á maganum og lenti á bakinu. Það gekk að sjálfsögðu ekki þarna á grjóthörðu og grófu malbikinu. Ég varð því að hlaupa beint að ránni og lenda svo bara á bert malbikið á þann fótinn sem ég stökk upp af. Þetta hafði ég oft reynt og náð að stökkva 2 metra þannig, en þá lent í sandi eða á dýnum innanhúss. Þarna varð ég að láta mér það nægja að lenda bara á löppinni. Þetta var „malbiksstíllinn“!

 

Svo hækkaði ég rána í 1,70-1,80, 1,85 og síðan í 1,90. Þá var komið að því að gefa enn betur í. Þá skeður það í fyrsta stökkinu á 1,90 að eitthvað fer úrskeiðis, ég fer nánast ekkert upp, heldur þýt nær lárétt áfram í loftinu, - hnakkinn fer að liggja lægra en bolur og fætur. Ég næ að snúa mér leiftursnöggt á hliðina rétt áður en ég hefði lent á hnakkann á malbikið. Síðan skall ég niður. Ég brölti á fætur, allur rifinn, tættur og blóðrisa á annarri hliðinni. Ég skildi ekkert í því hvað hafði valdið þessu þar til ég leit undir skóinn á stökkfætinum, sólinn var horfinn, hafði bara flest af í uppstökkinu! Ég staulaðist í burtu og hét sjálfum mér því að þetta skyldi ég aldrei gera aftur.

 

Ég var allur skakkur og skældur í rúma vikur, en þá mætti ég fyrst aftur upp á Malarvöll. Enn var völlurinn blautur og óstökkvandi alls staðar nema suður á tennisvöllunum. Nú var ég gróinn sára minna, mættur aftur og Þórarinn gamli skósmiður á Grettisgötunni, (pabbi Guðmundar þjálfara) búinn að gera við strigaskóinn. Nú, hvað gerir maður á svona fallegum degi? Ég fór auðvitað með stökkáhöldin beint suður á tennisvelli og hélt bara áfram frá því síðast var frá horfið eins og ekkert hefði í skorist og gamla loforðið um að gera þetta aldrei aftur var löngu gleymt.

„Aðstaðan“ var nýtt út í ystu æsar á þessum árum, en hvort vit var í því öllu, það er annað mál.

 

Barist um sandhrúgurnar

 

Stökkvarar bjuggu við það víðast hvar fram til 1960-1970 að lenda í sandgryfjum í hástökki og stangarstökki. Á Olympíuleikunum í Tokyo 1964 var lent í sandi í hástökkinu. Á OL í Mexikó ’68 voru komnar dýnur. Þar til dýnur komu var það grundvallaratriði að lenda rétt til þess að forðast stórslys. Hástökks- og stangarstökksæfingar hófust með því að stökkvararnir urðu að moka sér haug eða hrúgu til þess að lenda í. Þetta gat verið nokkuð puð en var þó ágætis uppmýking í 10-20 mínútur.

 

Nú vildi það koma fyrir á Melavellinum að menn þyrftu að bregða sér á WC eða fara í símann, enda æfðu menn oft í 2-4 klst. Þegar stökkvararnir komu til baka þá var stundum búið að „stela“ hrúgunni því þá voru lang- eða þrístökkvarar mættir og búnir að slétta sandinn út. Þessi „þjófnaður“ fór þó venjulega fram í mesta bróðerni. Menn fóru þá bara að dunda sér við eitthvað annað. En eitt er víst að sjaldnast nenntu menn að moka sér hrúgu tvisvar sama daginn.

 

(Í.R.-blaðið, febrúar 1998)