Endurminningar Gísla Halldórssonar Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst

Skildinganesmelar

Einhverjum kann að þykja það eiga lítið erindi í ævisögu en ég tengist Melavellinum sterkum böndum því allar keppnisíþróttir sem við félagarnir iðkuðum á unglingsárunum fóru þar fram og alla mína knattspyrnuleiki hérlendis lék ég þar.Við hann eru margar góðar minningar bundnar.
Skildinganesmelar voru lengi helsta íþróttasvæði Reykjavíkur. Þeir voru stórt og flatt svæði og lágu frá kirkjugarðinum við Suðurgötu og suður að Grímsstaðaholti niður að Skerjafirði.
Fyrsta heimild um íþróttaiðkun á Melunum er frá árinu 1840. Þá gaf Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti út eftirfarandi auglýsingu: „Fimmtudaginn 19. þ.m. verður á Skildinganesmelum frá kirkjugarðinum og suður undir sjó, og fyrir sunnan Sauðagerði, skotið með byssukúlum til frækleiks, hvörs vegna allir óviðkomandi menn aðvarast að koma ekki nærri þeim stað á tjeðum tíma.“9 Eins og hér kemur fram er þetta fyrsta leyfi sem veitt er til íþróttaæfinga á Melunum, eins og þeir voru kallaðir í daglegu tali. Það einkennilega var að hér var um skotfimi að ræða en hvorki glímur, hlaup né kappreiðar, eins og síðar varð. Ástæðan var sú að danskir kaupmenn voru þá hér allmargir og stóðu fyrir þessari umsókn. Í Danmörku voru mörg skotfélög og var þetta vegna áhrifa þaðan. Síðar mynduðu þessir menn hér skotfélag í Reykjavík árið 1867 og byggðu Skothúsið vestan Tjarnarinnar rétt norðan við veginn sem síðar var lagður yfir Tjörnina og dró nafn sitt af húsinu. Skotfélagið var eitt fyrsta íþróttafélag landsins og lifði fram undir aldamótin 1900 en dó þá drottni sínum.10 Annað skotfélag í Reykjavík lifði skamma stund á þriðja áratug tuttugustu aldar en Skotfélag Reykjavíkur sem nú starfar, það þriðja í röðinni, var stofnað 1950.11 Þessi þrjú skotfélög sem öll hétu sama eða svipuðu nafni endurspegla nokkuð erfiðleikana við að halda íþróttafélögum á lífi hérlendis.


Fleiri íþróttamenn vildu iðka íþróttir á Melunum. Árið 1873 stofnaði Sverrir Runólfsson steinsmiður Glímufélagið í Reykjavík og óskaði eftir að bærinn léti honum í té litla spildu sunnan kirkjugarðsins undir glímuvöll. Hann fékk umbeðið leyfi og útmældan landskika sem var 30×45 álnir, en lengd var þá enn mæld í álnum. Ein alin var tæplega 63 sm svo láta mun nærri að þessi fyrsti glímuvöllur landsins hafi verið 19×28 metrar að stærð.12 Þetta er talsvert stærri völlur en þeir sem nú tíðkast og hefur vafalaust verið ætlast til að margir gætu glímt þar samtímis. Sverrir lét gera þarna góðan grasvöll til þess að glíma á, en þá var alltaf glímt utandyra. Félag þetta starfaði í nokkur ár, en lagðist svo af. Glímuvöllurinn á Melunum var þar sem nú stendur stytta Einars Jónssonar, Útlaginn, og var fyrsti manngerði íþróttavöllur á Íslandi. Lengi markaði nokkuð fyrir þessum glímuvelli eftir að notkun hans var hætt.


Landrými var nóg á Melunum og þótti allgott að æfa þar hvers konar útiíþróttir, þótt þar væri grýtt og nokkuð ójafnt á köflum. Framan af var íþróttastarfið einkum á norðurhluta svæðisins, suður af kirkjugarðinum, en þegar kom fram undir aldamót voru allir Melarnir lagðir undir íþróttir af ýmsu tagi. Það sýndi sig þegar hinn skoski prentari James Ferguson kom hingað skömmu fyrir aldamótin 1900 og kynnti landsmönnum nýja íþrótt, fótboltann. Þá voru Melarnir umsvifalaust valdir sem heppilegasti staðurinn til fótboltaæfinga. Vissulega var kvartað undan ójöfnum og grjóthnullungum, en það mátti allt færa til betri vegar þegar áhuginn var fyrir hendi.
Ensk og dönsk herskip voru þá tíðir gestir í Reykjavíkurhöfn. Þegar sjóliðarnir höfðu landvistarleyfi vildu þeir fá að spreyta sig í fótbolta. Meðan ekkert félag var til hér að keppa við mættu þeir með tvö lið til keppni. Eftir að Fótboltafélag Reykjavíkur var stofnað 1899 sóttust þeir eftir kappleikum við félagið. Þá var aðeins einn staður sem hægt var að keppa á, en það voru Melarnir. Þegar þjóðhátíðir voru haldnar í Reykjavík árin 1897–1906 voru jafnan haldnar kappreiðar á Melunum. Allt sýnir þetta að þarna var hin besta aðstaða til vallargerðar fyrir hvers konar íþróttir.


Völlurinn byggður 1911


Þegar félögum fjölgaði sem stunduðu knattspyrnu og frjálsar íþróttir á fyrsta áratug 20. aldar varð mönnum ljóst að skipa varð stjórn til að tryggja að allt færi skipulega fram og allir fengju aðstöðu til æfinga á ákveðnum tíma á íþróttasvæðinu. Svo þurfti einnig að byggja völl sem væri hægt að selja aðgang að. Áhugamenn funduðu því um framgang málsins árið 1910 og urðu sammála um að stofna Íþróttasamband Reykjavíkur. Í stjórn þessara samtaka voru eftirtaldir menn kjörnir: Ólafur Björnsson, formaður, Hallgrímur Benediktsson, ritari, Lorentz H. Müller, Guðmundur Sigurjónsson og Sigríður Björnsdóttir. Verkefni stjórnarinnar var að reka íþróttavöll sem byggður yrði á Melunum svo fljótt sem auðið væri. Auk þess skyldi hún skipuleggja æfingar og afnot öll á hinum nýja velli.


Bæjarstjórn Reykjavíkur hafði tekið jákvætt í málið og styrkt vallargerðina með 2.500 krónum af þeim 10.900 sem hún var talin kosta. Enn vantaði því 8.400 kr. Til þess að tryggja framgang málsins sendi stjórnin umburðarbréf til hátt á þriðja hundrað manna um að þeir gengjust í ábyrgð fyrir lánum til framkvæmdanna. Þessi fróma ósk stjórnarinnar gekk henni að óskum svo hún gat hafið framkvæmdir og byggt nýjan íþróttavöll á Melunum. Margir einstaklingar hlupu undir bagga en rausnarlegast var framlag hins kunna stjórnmálamanns dr. Valtýs Guðmundssonar prófessors sem ábyrgðist 2000 króna lán fyrir vallarstjórnina. Þegar féð var fengið gekk vel að byggja völlinn og var hann vígður 11. júní 1911. Ungmennafélag Íslands hafði þá forgöngu um mikið íþróttamót sem stóð á vellinum á hverju kvöldi í heila viku og var fyrsta Landsmót samtakanna. Mótið var haldið til að minnast 100 ára afmælis frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar 17. júní 1911. Varð völlurinn þegar í stað mikil lyftistöng fyrir allt íþróttalíf í Reykjavík.


Á þessum fyrsta Melavelli sem lá sunnan við Hringbrautina og samhliða henni var hringbraut 400 m á lengd, með fjórum hlaupabrautum, sem þá var algeng stærð á frjálsíþróttavelli. Fyrir innan hlaupabrautirnar var malarvöllur fyrir knattspyrnu, 102×68 m. Í hálfmánunum fyrir aftan mörkin var aðstaða fyrir frjálsíþróttamenn. Að vestan var sandgryfja fyrir hástökk og stangarstökk. Í eystri endanum var aðstaða fyrir spjót- og kringlukast. Kringum hlaupabrautina var eins metra há girðing úr timbri, til að áhorfendur færu ekki inn á keppnisvöllinn. Aðal áhorfendasvæðið var að norðanverðu við völlinn. Þar voru byggðir timburpallar. Sá fyrri var um 30 sm á hæð, en hinn 20 sm hærri. Þeir voru um 100 sm á breidd hvor. Gátu tvær til þrjár raðir áhorfenda staðið á hvorum palli. Þarna var því ágæt aðstaða fyrir áhorfendur. Fyrir miðju vallarins var lítil yfirbyggð stúka fyrir heiðursgesti. Þessi stúka var ein minnsta stúka sem um getur og kostaði hana Hjalti Jónsson skipstjóri, Eldeyjar-Hjalti. Þarna var einnig byggð aðstaða fyrir vallarstjóra, böð og búningsherbergi, svo og dómaraherbergi. Aðeins var kalt baðvatn til afnota, en íþróttamenn létu sig hafa það og tóku sér gott bað eftir keppni eða æfingu. Allar sundkeppnir fóru þá fram í sjó, svo það þótti ekki nema eðlilegt að taka sér kalt bað. En kalt var það!
Þ að urðu verulegar breytingar á öllu skipulagi íþróttastarfseminnar eftir að þessi völlur var tekinn í notkun. Félögin höfðu samvinnu um skipuleg vinnubrögð um æfingatíma og ákveðin íþróttamót. Knattspyrnuráð var stofnað og það hafði forgöngu um skipulag móta og skipun dómara í þeirri grein. Vallarstjórnin sá um yfirstjórn vallarins og réð vallarstjóra til þess að sjá um allan daglegan rekstur. Allt gekk þetta vel og fögnuðu allir þessum kærkomna áfanga, að hafa fengið nothæfan völl til að iðka sína íþrótt við þokkalegar aðstæður.


Ég kom fyrst á Melavöllinn árið 1924, níu ára að aldri. Þá var KR að keppa í knattspyrnu gegn Víkingi. Sigurður bróðir minn var þá nýkominn í 1. flokk knattspyrnumanna KR aðeins 17 ára gamall og hafði mikinn áhuga á að við yngri bræðurnir kæmum á leikinn. Mér þótti völlurinn stór í sniðum og hreifst af leiknum, enda ágætir knattspyrnumenn á vellinum. Það var bara eitt sem skyggði á þessa fyrstu heimsókn mína á völlinn, en það var að KR tapaði leiknum. Félagið var ekki komið á toppinn enn. Það varð ekki fyrr en 1926 en þá jöfnuðu þeir fyrir fyrri töp.


Á 17. júní og stöku sinnum á sumrin voru íþróttakappleikir á Melavelli og síðan skemmtanir með dansi og lúðrablæstri. Þar var einnig hringekja sem laðaði mjög að sér yngri kynslóðina. Ég heillaðist af henni þegar ég kom þarna fyrst ungur að árum. Hringekjan mun hafa verið sett upp um 1920 og var notuð þar til völlurinn var fluttur 1926. Þetta var handsnúin hringekja. Uppi á lofti var þverslá sem gekk í gegnum ás sem náði frá gólfi og upp í þak. Á ásinn voru festir tréhestar sem gestirnir sátu á. Undir rjáfrinu sáu sjálfboðaliðar um að snúa hringekjunni með því að ýta á þverslána og urðu þeir að hlaupa allt hvað þeir gátu til þess að fá nokkra ferð á hestana. Þetta voru ungir strákar sem púluðu á loftinu eins og galeiðuþrælar í 20–30 mínútur. Eftir það fengu þeir sína umbun sem var ókeypis salíbuna á hestunum í 2–3 mínútur. Oft var ég í hópi strákanna sem sneri hringekjunni og dró ekki af mér. Það var ævintýri líkast að snúast á fleygiferð hring eftir hring á tréfákunum og þarna var stöðug biðröð á stærri mótum. En það kostaði peninga sem við strákarnir áttum ekki til. Eina ráðið var að vinna fyrir frírri ferð og það var alltaf nægur vinnukraftur til að snúa hringekjunni.


Nýr Melavöllur 1926


Allt í kringum völlinn frá 1911 var tveggja metra há girðing sem klædd var bárujárni svo óviðkomandi gætu ekki horft á íþróttirnar án þess að borga sig inn. Í febrúar árið 1926 fauk svo til öll girðingin kringum völlinn í ofsaveðri svo hann varð ónothæfur sem keppnisvöllur um sinn. Um þessar mundir var verið að vinna að nýju bæjarskipulagi Reykjavíkur, sem samþykkt var 1927. Þá var búið að ákveða hvar Hringbrautin ætti að liggja um Melana. Hún lá að hluta til yfir norðurhlið vallarins. Bæjarstjórn og forráðamenn Íþróttasambands Reykjavíkur urðu því sammála um að tilgangslaust væri að endurbyggja íþróttavöllinn á sama stað. Sú hugmynd kom fram að byggja nýjan völl sem lægi meðfram Suðurgötu, sem reyndar hét þá Melavegur á þessum kafla.


Samkomulag varð um þennan stað og jafnframt um að bæjarstjórn sæi alfarið um endurbyggingu hins nýja leikvangs. Hann skyldi vera stærri og betur útbúinn en sá fyrri. Þá var ákveðið að allan kostnað af endurbyggingunni skyldi greiða úr bæjarsjóði. Reksturinn skyldi einnig vera á ábyrgð bæjarsjóðs en fimm manna nefnd sjá um framkvæmdir. Þrír nefndarmanna komu úr bæjarstjórn en tveir voru kjörnir af íþróttahreyfingunni. Íþróttamenn fögnuðu þessari breytingu. Þar með var þessum mikla fjárhagsbagga velt af íþróttasamtökunum. Allir sluppu því skaðlaust frá ábyrgð sinni.
Nú var svæðið girt með bárujárni á svipaðan hátt og var um gamla völlinn. Rýmið var nokkru stærra svo hægt væri að koma fleiri íþróttum að síðar. Varð það til þess að ÍR og KR byggðu þarna tvo tennisvelli fyrir hvort félag. Þegar TBR var stofnað fékk það félag leyfi til þess að byggja einn tennisvöll í viðbót. Leikið var á asfalti, en vegna þess að erfitt var að leggja það jafn vel og nú, voru oft pollar á tennisvöllunum eftir rigningu, sem olli óþægindum. En vellirnir voru samt mikið notaðir. Bæjarverkfræðingurinn, Valgeir Björnsson, gerði uppdrætti að leikvanginum og sá um allar framkvæmdir.
Eftir að þessi völlur var tekinn í notkun var stöðugt verið að bæta hann og lagfæra. Baldur Jónsson var þarna vallarvörður lengst allra. Hann lagði sig mjög fram um að hafa allt eins gott og hægt var. Þess vegna lét hann bæta og mýkja yfirborð knattspyrnuvallarins með því að strá sigtuðum steinsalla í yfirborðið, svo þessi völlur var orðinn einn besti malarvöllur sem til var. Þá hafði Benedikt Jakobsson íþróttakennari unnið mikið að því að bæta hlaupa- og atrennubrautir fyrir frjálsíþróttamenn og voru þær taldar mjög góðar. Þetta var að sjálfsögðu löngu áður en gerviefnin komu til sögunnar. Þá var einnig stöðugt verið að bæta aðstöðuna í búningsklefunum. Man ég að íþróttamönnum þótti það mikil framför þegar hægt var að fá heitt bað sem dugði fyrir einn með því að stinga 25 aurum í gastæki sem hitaði vatnið, en það gerðist ekki fyrr en árið 1932.
Melavöllurinn og nágrenni hans rúmaði fleiri mannvirki en flestir vita um. Um tíma voru þau öll í notkun samtímis nema glímuvöllurinn og skotsvæðið. Samanlagt tóku þau þá yfir 7,5 hektara lands. Það sýnir best hvað Melarnir voru heppilegur staður fyrir þessi landfreku mannvirki. Þarna var frábær aðstaða til þess að byggja þessa velli á ódýran hátt. Melarnir voru að mestu rennisléttir og þurfti því svo til engan tilflutning á jarðefni. Það var þá erfitt og dýrt. Engar voru jarðýturnar, aðeins járnkarl, haki og reka til að jafna landið með. Þarna var því aðalverkið að hreinsa hnullunga og raka grjót af jarðveginum. Þar sem einhver halli var fyrir hendi var jafnað úr honum en heildarhallinn látinn eiga sig á öllum æfingasvæðum, hann var ekki meiri en það. Hallinn á KR-landinu þar sem 3. flokkur æfði var um einn metri en það kvartaði enginn yfir slíku. Aðalatriðið var að landið væri vel rakað og laust við nibbur.
Í heildina voru gerðir þarna sex sjálfstæðir knattspyrnuvellir. Þá var jafnframt útbúinn frjálsíþróttavöllur með sex tennisvöllum, badmintonvöllur, skautasvæði með hringbraut fyrir skautahlaupara og ísknattleiksvöllur. Auk þess voru svo aðrar íþróttir sýndar eða keppt í þeim á þessum völlum. Má þar til nefna fimleika, glímu og skotfimi. Það tímabil sem þessir vellir eða svæði eru nýtt af íþróttamönnum og konum stóð í raun frá fyrstu leyfisveitingu bæjarfógeta 1840 og allt þar til að Melavellinum frá 1926 var lokað árið 1984 eða samfleytt í 144 ár.


É g hef alltaf verið unnandi sögulegs fróðleiks og því tók ég mig til og teiknaði upp í núverandi umhverfi alla þá velli sem notaðir hafa verið frá upphafi á Melunum, nema einn. Það var völlur sem Valur gerði þar sem gamla Loftskeytastöðin var síðar byggð. Valsmenn fengu hann í sárabætur vegna þess að járnbrautin sem flutti grjót í hafnargarðana á árunum 1914–1918 var lögð þversum yfir æfingavöll þeirra. En ástæðan fyrir því að þeir voru ekki þátttakendur í fyrstu vallargerðinni 1911 var sú að séra Friðrik Friðriksson taldi að hann gæti ekki látið félaga sína, unga að árum, ganga í ábyrgð eins og þeir gerðu sem byggðu Melavöllinn. Þess vegna fengu þeir að ryðja sinn eigin æfingavöll sunnan Hringbrautar móts við suðvesturhorn gamla kirkjugarðsins við Suðurgötu. Þegar bærinn endurbyggði Melavöllinn fengu Valsmenn afnot af hinum nýja leikvelli eins og hin félögin.
Þegar járnbrautarlínan var lögð niður var gamli Valsvöllurinn aftur tekinn í notkun sem æfingasvæði fyrir 3. flokk félaganna. Þá var gamli völlurinn frá 1911 einnig notaður lengi sem æfingavöllur fyrir knattspyrnuæfingar eldri flokka. Það var því orðið þröngt um fjögur knattspyrnufélög og þrjú til fjögur frjálsíþróttafélög á þriðja áratugnum. Kvað svo rammt að þrengslum að KR fékk leyfi til að ryðja nýtt æfingasvæði fyrir 3. flokk. Var það staðsett þar sem Víðimelur byrjar, gegnt elliheimilinu Grund. Melarnir voru því orðnir umfangsmikið íþróttasvæði fyrir alla bæjarbúa. Alls voru fimm knattspyrnuvellir ruddir á Melunum á þeim tíma sem íþróttamiðstöð bæjarbúa var þar.
Þ egar ákveðið var árið 1935 að skipuleggja nýtt íþróttasvæði við Nauthólsvík, sem síðar var fært yfir í Laugardalinn voru Melarnir skipulagðir fyrir íbúðir, skóla og aðra þjónustu. Þar með var ákveðið að leggja niður alla íþróttastarfsemi á Melunum.


Melavöllurinn lagður niður


Á rið 1958 var ég skipaður formaður vallarstjórnar af hálfu borgarstjórnar í Reykjavík. Hlutverk vallarstjórnar var að hafa umsjón með íþróttasvæðum borgarinnar sem var þá fyrst og fremst Melavöllurinn. Borgarstjórn og ÍBR skipuðu vallarstjórn sameiginlega. Þá var Laugardalsvöllurinn í byggingu og sýnilegt að hann myndi í fyllingu tímans taka við hlutverki Melavallarins. Vallarstjórn samþykkti að þar sem 11. júní 1961 væru 50 ár liðin frá vígslu fyrsta vallarins skyldi halda veglegt afmælismót af því tilefni. Þegar kom að þessum tímamótum hélt vallarstjórn ásamt ÍBR, KSÍ og FRÍ íþróttamót á Melavellinum sem lauk um kvöldið með kaffisamsæti íþróttamanna í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Þar hélt ég ræðu og rakti sögu vallarins sem er samofin sögu íþróttanna í Reykjavík. Ég minntist frumherjanna sem stofnuðu Íþróttasamband Reykjavíkur árið 1910 og tókst að koma upp leikhæfum íþróttavelli á Melunum ári síðar. Ég benti á að bygging Melavallarins mundi ávallt verða talinn sá mílusteinn sem markar tímamót í endurreisn íslensks íþróttalífs. Með tilkomu hans hófst skipuleg uppbygging íþróttahreyfingarinnar.

Síðan sagði ég m.a.: Þegar Íþróttasamband Reykjavíkur var stofnað árið 1910 var gróandi í íslensku þjóðlífi. Það hillti undir frelsið, það var vorhugur æskunnar sem hreif þá eldri með sér til dáða. Þá stigu ungir menn á stokk og strengdu heit eins og til forna, að bera sigur úr býtum á íþróttamótum eða verða minni menn ella. Heilir flokkar lögðu land undir fót til þess að taka þátt í íþróttamótum. Til dæmis gengu Vestmannaeyingar frá Stokkseyri til Reykjavíkur til þess að taka hér þátt í fyrsta Íslandsmótinu í knattspyrnu 1912. Þá varð frægt þegar Sigurjón Pétursson fór austur að Seljalandsfossi til þess að synda þar og fá sér síðan ærlegt steypibað undir fossinum, sem er 50 metra hár. Allt þetta sýnir að um þetta leyti var að vaxa upp dugandi æska, sókndjörf til stórátaka.


Völlurinn varð strax miðstöð skemmtanalífs bæjarins og þegar eftir vígsluna hélt Ungmennafélag Íslands sitt fyrsta íþróttamót er stóð í átta daga samfleytt. Hófst það 17. júni í tilefni 100 ára afmælis Jóns Sigurðssonar en byggingu vallarins var m.a. hraðað svo að hægt væri að halda þetta mót með sérsökum glæsibrag. Síðan hafa íþróttamenn og konur haldið 17. júní hátíðarmót árlega.
Vegna þess að fyrsti völlurinn náði nokkuð út í vegarstæði Hringbrautar var ákveðið að flytja hann nokkuð austar. Var þetta samþykkt í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1925 en jafnframt þessu var samþykkt að bærinn kostaði nú alla nýbygginguna enda afhenti ÍSR allar fasteignir sínar á Melunum. Eftir það hefur völlurinn verið rekinn sem bæjarfyrirtæki í samvinnu við íþróttamenn.
Á aðalfundi Íþróttasambands Reykjavíkur hinn 16. maí 1926 var svo ákveðið að leggja þessa merku stofnun niður. Miklu dagsverki var lokið í þágu íþróttahreyfingarinnar og ber að þakka öllum þeim mörgu sem lögðu þar hönd að verki. Hinn endurbyggði völlur var svo vígður 17. júní 1926. Íþróttahreyfingin hafði nú vaxið mjög og var því haldið áfram að nota fyrsta völlinn til æfinga og því hlutverki gegndi hann enn um 18 ára skeið eða þar til byggð færðist yfir hann allan.


Við höfum nú haft afnot af núverandi velli í 35 ár og hafa vinsældir hans ávallt verið miklar, bæði meðal íþróttamanna og bæjarbúa, enda hefur ávallt verið reynt að halda honum við eftir aðstæðum og ber að þakka bæjarstjórn svo og öllum þeim mörgu sem átt hafa setu í vallarstjórn og unnið þar markvisst starf að bættum aðbúnaði íþróttamanna. Sem dæmi um þær endurbætur sem gerðar hafa verið á aðstöðu íþróttamanna vil ég aðeins geta þess að áður fyrr þótti eðlilegt og sjálfsagt að öll met í frjálsum íþróttum væru sett erlendis en á síðari árum hafa þau flest verið sett á Melavellinum og nokkur erlend met að auki. Malarvöllurinn var talinn einn sá besti sinnar tegundar á Norðurlöndum.


Vagga íþróttalífs Reykjavíkur stóð á Melunum en með stækkun bæjarins hafa íþróttavellir og svæði dreifst um bæinn. Nú er svo komið að vallarstjórn ræður yfir þremur íþróttavöllum og níu svæðum, þar sem skipulegar íþróttaæfingar fara fram. En auk þess er nú keppt og æft á átta völlum í eigu einstakra félaga.
Árið 1959 var Laugardalsvöllurinn vígður en með starfsrækslu hans breytist nokkuð rekstur Melavallarins og verður hann ekki eins stór liður í íþróttalífi bæjarins hér eftir. Laugardalsvöllurinn er verðugur arftaki Melavallarins og vonandi rætist þar draumur Ólafs Björnssonar að jaðar vallarins verði skógi klæddur í framtíðinni.

Margir vildu leggja Melavöllinn niður strax eftir að Laugardalsvöllurinn kom til. Við sem vorum í íþróttaforystunni lögðumst eindregið gegn því og bentum á að grasvöllur gæti aldrei komið í stað malarvallar því grasvellir væru oft ekki tilbúnir til notkunar fyrr en í júní og væru svo úr leik eftir miðjan september. Auk þess væri Melavöllurinn einn besti malarvöllur sem um væri að ræða. Þetta tókst. Melavöllurinn var notaður samhliða Laugardalsvelli sem æfinga- og keppnisvöllur lengi vel. Honum var ekki lokað endanlega fyrr en árið 1984 þegar gervigrasvöllurinn í Laugardal var tekinn í notkun. Í febrúar 1985 voru flóðljósin af Melavelli flutt þangað. Þegar litið er yfir þetta stóra landflæmi sem búið var að taka þarna undir íþróttavelli undrast maður þá skammsýni sem réð því að ekki var hægt að halda einum velli eftir fyrir Vesturbæinga á þessu fornfræga íþróttasvæði.

Heimasíðu Gísla er að finna hér