Minnigar frá árinu 1950 Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
  • Landskeppni við Dani í frjálsum íþróttum 1950
Árið 1950 er mér minnisstæðast, þá sigruðum við aðra þjóð í fyrsta skipti í landskeppni, með því að sigra Dani í frjálsum íþróttum. Tveimur árum áður höfðum við tapað fyrir Norðmönnum í landskeppni í frjálsum íþróttum. Með því að sýna mikinn sigurvilja og hörku tókst okkur að sigra Danina. Hvað mig varðar keppti ég í hástökki sem annar besti Íslendingurinn og átti best fyrir keppnina 1,78 m. Betri Daninn, Erik Nissen, hafði nýlega unnið bestu menn Noregs með stökki upp á 1,85 m, en nú stökk hann aðeins 1,75 m og hinn Daninn 1,70 m. Ég náði hins vegar að stökkva 1,85 m og varð annar í röðinni á eftir Skúla Guðmundssyni, sem setti nýtt Íslandsmet með 1,96 m stökki. Í mörgum greinum gerðist það sama og í hástökkinu og sigruðum við Danina með 108 stigum gegn 90.
  • Heimsmethafa boðið til Íslands
Fleira minnisstætt 1950: Bob Mathias sem var heimsmethafi í tugþraut og hafði sigrað á Ólympíuleikunum í London árið 1948 í tugþraut. Hann átti eftir að sigra í sömu grein í Helsinki 1952 og margir álitu hann vera besta íþróttamann heims á þessum árum. Honum var boðið til Íslands, til að taka þátt í meistaramóti Íslands og tók hann m.a. þátt í 110 m grindahlaupi og hástökki. Örn Clausen varð Íslandsmeistari í grindahlaupinu og hann og Bob urðu hnífjafnir í mark. Í hástökkinu varð ég Íslandsmeistari og stukkum við Bob sömu hæð, en vegna hagstæðari stökktilrauna varð ég í 1. sæti, en Bob í 2. sæti!
  • Langstökkskeppni á Septembermóti 1950
Þetta sama ár tók ég þátt í langstökkskeppni, á hinu svokallaða Septembermóti, sem fór fram eins og nafnið bendir til í septembermánuði og var ávallt haldið á Melavellinum. Ég var skráður í tvær greinar, hástökk og langstökk og keppti fyrst í hástökki og vann það, stökk 1,80 m og reyndi ekki við hærri hæð. Þegar að langstökkskeppninni kom var farið að skyggja. Aðalstjarnan í þessari langstökkskeppni var hinn nýbakaði Evrópumeistari Torfi Bryngeirsson, sem ekki hafði tapað langstökkskeppni allt sumarið, þar með talin langstökkskeppnin á Evrópumeistaramótinu í Brüssel. Torfi hafði eins og ég keppt í einni grein (stangarstökki) á þessu móti áður en langstökkið hófst. Hófst nú keppnin og í þriðju umferð set ég persónulegt met með 6,65 m stökki (áður átti ég best 6,54 m) en þar sem byrjað var að skyggja og brautin frekar þung tekst Torfa ekki að stökkva lengra en 6,82 m í sínum 6 stökktilraunum. Á ég nú eina stökktilraun eftir og flestir farnir inn í búningsklefana, þar á meðal Torfi. Nú gerðist það ótrúlega, því í síðustu tilraun stekk ég 6,88 m og þar með var ég sá eini sem sigraði Torfa í langstökki þetta ár.