Þróttur 1919 - Íþróttamannafundur Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Í 1. tölublaði fréttbréfsins Þróttar árið 1919 birtist eftirfarandi fundargerð frá almennum íþróttamannafundi sem handinn var í nóvember það ár, væntanlega skráð af Helga Hjörvar, ritara fundarins.

Íþróttamannafundur

Sunnudaginn 16. nóv. 1919, kl. 4 síðd, var haldinn almennur íþróttamannafundur í Iðnaðarmannahúsinu í Reykjavík og var boðað til fundarins af stjórn Íþróttavallarins.
Formaður Í.S.R. Sigurjón Pétursson kaupm, setti fundinn, en fundarstjóri var kosinn Helgi Jónasson bankaritari, en hann hvaddi til ritara Helga Hjörvar kennara.

Þetta gerðist á fundinum:

I.
Sigurjón Pétursson kvaddi sér hljóðs og bað fundarmenn að minnast látins félagsmanns og fyrrum formanns Í.S.R. Ólaf Björnsson ritstjóra, og stóðu fundarmenn allir upp --

Því næst rakti ræðumaður stofnun Íþróttavallarins og lýsti hag hans; væri hann nú orðinn skuldlaus eign Í.S.R., með áhöldum öllum, og ætti nokkuð í sjóði. – Þá veik ræðumaður að iðkun íþrótta yfirleitt og heilsusamlegu líferni, og talaði einkum yfir hausamótum tóbaksmanna og þeirra ungmenna, sem teljast við íþróttir en sitja í reykhúsum og bíóum og ganga í lífstykki. En enginn fundarmanna mun hafa tekið þetta til sín, því allir klöppuðu ræðumanni lof í lófa.

II.
Þá flutti Bjarni alþm. Jónsson frá Vogi langt erindi um menning. Hellena og Olympísku leikina grísku. Þökkuðu fundarmenn með lófataki. En formaður þakkaði Bjarna erindi hans og margan styrk við íslenzkar íþróttir, og bað fundarmenn votta honum þökk og vinarhug með því að hrópa fyrir honum ferfalt húrra, og var það gert ótæpt.

III.
Því næst flutti Björn Ólafsson skörulega ræðu um þroskagildi íþrótta, sérstaklega um hlaup og göngur, og brýndi fyrir mönnum þessi orð postulans: “Þér eruð dýru verði keyptir, vegsamið því guð í líkama yðar”. Þökkuðu fundarmenn erindið hið bezta.

IV.
Formaður Sigurjón Pétursson, gat þess, að sér hefði borist bréf frá skoskum knattspyrnumönnum, sem spyrjast fyrir um það, hvort íslenzkir íþróttamenn mundu geta tekið heimsókn þeirra á sumri komanda. – En með því að fundartími var þá mjög á þrotum, varð það mál ekki rætt nánar.

V.
Steindór Björnsson þakkaði í nafni fundarmanna Sigurjóni Péturssyni langt starf og þarflegt í þjónustu íþróttamanna, og sérstaklega Íþróttavallarins, og hrópaði gervallur fundurinn ferfalt húrra Sigurjóni til sæmdar og heilla.
Er nú sem þetta gerðist, var lúðrafélagið “Harpa” komið á fundinn – og lék “Táp og fjör og frískir menn”, og þá hvert lagið af öðru.

VI.
Ritari spurði fyrir um það hjá forgöngumönnum fundarins, hvort ekki hefði átt að ræða Ólympíuför íslenzkra íþróttamanna næsta sumar, og kváðu þeir svo hafa verið, en fundartíma þrotinn. Yrði því að halda annan fund slíkan sem bráðlegast.

--------

Fundurinn var það fjölsóttur, að fullskipaður var salurinn hinn meiri í Iðnó. En svo var kalt, að einsætt þótti að eigi mundi dusilmennum ætlað að sækja fund þenna.
Að lokum þeyttu lúðramenn “Ó guð vors lands”. Var þá fundargerð lesin upp og samþykt, og því næst fundi slitið.