Heimsókn Queen’s Park Rangers Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Árið 1947 kom enska knattspyrnuliðið Queen’s Park Rangers í heimsókn til Íslands í boði Knattspyrnuráðs Reykjavíkur og lék fjóra leiki á Melavellinum. Á þessum tíma lék liðið í þriðju deild ensku knattspyrnunnar og hafði lokið keppni í öðru sæti þeirrar deildar. Lundúnaliðið Queen’s Park Rangers var stofnað árið 1886 þegar liðin St. Jude’s (stofnað 1882) og Christchurch Rangers sameinuðust. Nafnið er tilkomið þar sem flestir leikmenn liðsins voru frá Queen’s Park í Lundúnum. Liðið varð atvinnumannalið árið 1889 og hóf að leika á heimavelli sínum, Loftus Road, á tímabilinu 1933-34 þar sem það leikur enn þann dag í dag. Í Íslandsheimsókn sinni lék Q.P.R. gegn Fram og K.R., auk tveggja leikja við úrvalslið Reykjavíkurliðanna.
 
Eftirfarandi frásögn af heimsókn liðsins birtist í júlí-ágústhefti Íþróttablaðsins árið 1947:


Heimsókn Queen’s Park Rangers

Það var vel til fundið hjá Knattspyrnuráði Rvíkur, að gefa knattspyrnuunnendum kost á að sjá brezka atvinnuknattspyrnumenn leika listir sínar hér á knattspyrnuvellinum.
 
Knattspyrnufélagið Queen’s Park Rangers frá Lundúnum kom hingað 2. júní s.l. og keppti fjórum sinnum við reykvíska knattspyrnumenn. Q.P.R. er eins og áður er sagt félag atvinnuknattspyrnumanna og er í 3. flokki. Varð félagið næst efst í röðinni af 22 félögum, í síðustu keppni. Má eflaust slá því föstu að styrkleiki þessa félags sé álíka og 60% af félögunum í 2. flokki, en bestu félögin í 2. flokki, jafnast aftur á móti við miðlungsfélög í 1. flokki, en 1. flokkur er sterkasti flokkurinn meðal atvinnuknattspyrnumanna í Englandi. Af þessu geta menn frekar áttað sig á því hvern sess Q.P.R. skipa í enskri knattspyrnu.
 
Eins og fyrr er getið, voru háðir hér fjórir kappleikir, tveir við úrvalslið Reykjavíkurfélaganna og einn leikur við hvort félaganna Fram og K.R. Leikirnir voru mjög vel sóttir, enda var veður hið ákjósanlegasta á öllum leikjunum. Ekki kvörtuðu Bretarnir undan vellinum, þótt hann sé all mikið harðari en grasvellirnir, sem þeir hafa vanist. Völlurinn hér mun sjaldan eða aldrei hafa verið í betra ásigkomulagi en á meðan Q.P.R. dvöldust hér og er vert að þakka þeim, sem þar eiga hlut að máli.
 
Dagblöð höfuðstaðarins birtu jafnóðum all ítarlegar greinar um hvern einstakan kappleik og verður því ekki farið út í að endurtaka þær lýsingar hér, en hins vegar reynt að draga fram heildarsvip leikjanna. Það er almannarómur, að knattspyrna sú er Q.P.R. sýndu hér í leikjum sínum, beri að mörgu leyti af því, sem hér hefir áður sést. Knattspyrnumenn og aðrir, sem fylgzt hafa með knattspyrnu hér á landi, hafa flestir haldið því fram, að besta liðið, sem sótt hefði okkur heim, væri þýzka úrvalsliðið sem hingað kom 1935. En eftir að hafa séð Q.P.R. leika hér í sumar, held ég að enginn sé í vafa um, að þeir taki öllu fram sem hér hefir áður sést. Vera má að hver einstakur leikmaður þýzka liðsins (og jafnvel Dananna í fyrra) standist samanburð við einstaklinga Q.P.R., en knattspyrna er nú einu sinni flokkakeppni, en ekki einstaklinga. Lið Q.P.R. sem heild, sýndi glæsilegri samleik en nokkrir aðrir gestir vorir hafa áður sýnt. Ekki aðeins úti á vellinum, heldur einkum og sér í lagi upp við mark andstæðingana. Sú erfiða þraut, að slá smiðshöggið á upphlaupið ö að skora mark – virðist vera þeim eins auðvelt og að leika með knöttinn milli sín á miðjum velli. En einmitt upp við markið hefur mörgum ágætum liðum, sem við höfum séð hér, brugðist bogalistin. Að vísu má fullyrða að mótstaða okkar sé minni og veikari nú en fyrir tíu árum, en þrátt fyrir það held ég að ekki sé hægt að efast um að þetta enska lið hafi sýnt meiri alhliða leikni og kunnáttu en nokkurt annað liðð, sem hingað hefir komið.
 
Margir hafa haft orð á því, um leið og talað er um hina miklu yfirburði, sem þetta enska lið sýndi, að styrkleiki knattspyrnumanna vorra í dag, sé minni en hann var fyrir 10-15 árum. Frammistaða „úrvalsliðs“ okkar á fyrsta leiknum móti Q.P.R. er sennilega það aumasta, sem sést hefir til ísl. úrvalsliðs um langt árabil. Úrvalslið fyrir 10-15 árum hefði ekki látið Q.P.R. bursta sig með 9:0. Beztu knattspyrnumenn okkar í dag, að mjög fáum undanskildum, virðast hvorki hafa þann þrótt né þá hugsun, sem einkenndi knattspyrnuna hér fyrir 10-15 árum.
 
Þrátt fyrir yfirburði Q.P.R. voru leikirnir hinir skemmtilegustu, og nutu áhorfendur þess án efa í ríkum mæli, að sjá hinn sterka og fágaða leik Englendinganna. Að vísu kann sumum að hafa þótt nógu um, er þeir sáu hve aðvelt gestunum reyndist að skora mörkin, en í því sambandi er rétt að gera sér ljóst, að hér voru á ferðinni menn, sem ekki stunda annað en knattspyrnu og komu hingað þaulæfðir og samstilltir eftir að hafa leikið eina fimmtíu kappleiki í ensku keppninni, er var nýlokið er þeir komu hingað. Okkar menn voru aftur á móti nýbyrjaðir að æfa auk þess áhugamenn.
 
Annars var hreinasta unun að sjá leik Q.P.R. Lítið reyndi eiginlega á vörnina hjá þeim, en þó sást á stundum hvers þeir voru megnugir ef á reyndi. Markvörðurinn, Allen, sem lék þrjá leiki er „týpískur“ enskur fyrsta flokks markvörður. Stór og sterkur, snar og fjaðurmagnaður, hleypur út úr markinu á réttu augnabliki og leikur með vörninni af miklum skilningi. Annar svar leitt að fá ekki að sjá Allen reyna verulega á sig, því að hann er án efa einn allra glæsilegasti markvörður Stóra-Bretlands. Bakverðirnir þurftu heldur ekki að beita sér neitt verulega, en það sem þeir þurftu að gera var framkvæmt aðdáanlega vel. Þeir virtust traustir í besta lagi. Sendu knöttinn mjög fallega, oft stutt til næsta manns eða til baka til markvarðar, en stundum sýndu þeir hve öruggir þeir eru í því að taka knöttinn á lofti og senda hann með snöggum og hreinum spyrnum fram á völl. Staðsetningar bakvarðanna voru áberandi góðar, enda voru þeir eins og aðrir í liðinu, vakandi og jafnan á hreyfingu og reiðubúnir til að hjálpa félögum sínum ef á þyrfti að halda.
 
Framverðirnir voru allir varamenn en nógu sterkir reyndust þeir samt okkar mönnum. Miðframvörðurinn var hár maður, en ekki sterkbyggður að sjá. Reyndist mjög laginn í því að ná knettinum og staðsetning hans eins og annarra í liðinu var áberandi. Hliðarframverðirnir ásamt innframherjanum byggðu leikinn mest og bezt upp. Úthald þessara manna var ódrepandi og leikni með knöttinn og staðsetningar voru einmitt það sem okkar menn áttu sérstaklega að taka eftir.
 
Útherjar og miðframherji voru eins og aðrir sannkallaðir meistarar í staðsetningu og öryggi, ekki sízt upp við markið. Upphlaup þessa frækna liðs mun seint líða úr minni þeirra, sem á horfðu. Hinar sífelldu víxlskiptingar framherjanna gerðu það mjög erfitt fyrir vörn okkar að stöðva upphlaupin, sem svo mjög oft enduðu með marki, oftast þannig skoruðu, að einhver úr framlínunni eða jafnvel hliðarframverðirnir, fóru eftir margbrotinn samleik, með knöttinn upp að endamörkum og sendu hann þaðan fyrir markið þannig að knötturinn stefndi aðeins frá markinu. Skipti það svo engum togum, að einhver af framherjunum, oftast miðframherjinn, hljóp á knöttinn og annaðhvort skallaði eða spyrnti honum í mark á stuttu færi. Það var engu líkara en að Q.P.R., í fyrsta leiknum á móti úrvalsliðinu, gætu skorað mark á þennan hátt, hvenær sem þeim sýndist.
 
Um frammistöðu okkar manna má segja það, að þeir reyndu af veikum mætti að standa á móti þunga þessa ofureflis, en sú mótstaða var því miður allt of veik.
 
Markverðirnir, Hermann, Anton og Adam, sem þurftu að sækja knöttinn í eigið mark alls 26 sinnum í fjórum leikjum, standa langt að baki starfsbræðrum sínum erlendis. Fjaðurmagn vantar í fætur þeirra, staðsetning í markinu er sæmileg, en kunnátta mjög lítil í því að hlaupa út úr markinu. Útspörkin eru til skammar, einkum þó hjá Antoni.
 
Af bakvörðunum, Sigurði Ólafssyni, Karli, Daníel og Hafsteini eru þeir fyrstnefndu beztir og munu þeirra stöður vera einna skárst skipaðar í okkar liði. Sigurður er alltaf öruggur, hefir hreinar spyrnur, sæmilegar staðsetningar og gerir sér far um að hugsa um sitt starf allan tímann. Karl á til að leika sem meistari annan daginn en tapa sér svo hinn daginn. Fyrir jafn reyndan leikmann og Karl, ætti slíkt ekki að koma fyrir. Daníel og Hafsteinn eru báðir vel liðtækir og stendur leikur þeirra eflaust til bóta.
 
Að þessu sinni kvað frekar lítið að hliðarframvörðunum. Sveinn Helgason og Óli B. geta þó gegnt þessum þýðingarmiklu stöðum sæmilega ef þeir eru heilir og í góðri æfingu, sem þeir hafa ekki verið í sumar. Sæmundur á til góð tilþrif, en er of þungur og seinn. Staðsetningar ekki nógu góðar og skortir úthald. Kristján er léttur og virðist hafa úthald á við tvo, en hans veika hlið er skortur á hugsun bæði í staðsetningum og spyrnum. Ef hann gæti lagað þetta, þá væri hann mjög liðtækur hliðarframvörður.
 
Birgir er að mörgu leyti sterkur miðframvörður, en gætti ekki nógu vel miðframvarðarins, sem fékk tækifæri til að skora of mörg mörk. Birgir verður að staðsetja sig betur og umfram allt að losa sig við knöttinn strax, ef hann er aðþrengdur, en ekki að hopa eða leika með hann.
 
Af framherjunum er Ellert enn furðu góður, alltaf léttur og snar en vantar áræði og kraft til stórræða. Virðist hann gugna ef leikið er sterkt á móti honum. Hann kom þó út með sæmilega einkunn eftir leikinn við Q.P.R. 
 
Innherja eigum við enga sem duga. Ari er enn lítt þroskaður leikmaður, en á til góðar spyrnur. Skortir þrótt og úthald og þarf að staðsetja sig betur. Hörður hefir margt til að bera sem miðframherja má prýða. Hann er sterkur, fylginn sér og getur skotið, en þó er hann ekki enn nógu reyndur til að gera þessu vandasama starfi góð skil. Þarf að venja sig á að hugsa meira um að staðsetja sig rétt. Eins er það með Magnús Ágústsson, hann virðist vanta sjálfstraust og er sýnilega leiður á miðframherjastöðunni. Ætti að skipta um stöðu um tíma. Ólafur Hannesson hefir mikinn hraða til að bera en það er ekki nóg ef knötturinn er skilinn eftir. Sama sagan, vantar leikni með knöttinn og meiri hugsun og skilning á starfi sínu. Nú er skarð fyrir skildi, þar sem áður var Albert Guðmundsson, sem er vissulega í sérflokki meðal knattspyrnumanna okkar. Hefir hann nú gerst atvinnuknattspyrnumaður og þótt leitt sé að missa hann munu allir óska honum gæfu og gengis í hans áhættusama starfi.
 
Við erum enn á gelgjuskeiði í knattspyrnunni, en ekkert annað en þrotlaus æfing undir réttri stjórn getur þroskað okkur í þessari góðu og vinsælu íþrótt. Heimsókn sem þessi ætti vissulega í fyrsta lagi að sýna okkur hvar við stöndum og einnig að vera hvatning til meiri og kröftugri átaka til að hefja knattspyrnuna á Íslandi til vegs og virðingar.

------

Brezka liðið kom til Reykjavíkur 2. júní. Í förinni voru allt 20 menn, þar af fjórtán leikmenn, forstjóri félagsins, þjálfari, ritari og nokkrir stjórnarmeðlimir, allt mjög viðfelldnir menn. Auk þess var með í förinni í boði Knattspyrnuráðsins, enski knattspyrnudómarinn Victor Rae, sem hér dvaldi á stríðsárunum og aflaði sér almennra vinsælda. Dæmdi hann síðasta leik Íslendinga og Breta og hlaut almennt lof fyrir.
 
1. leikur Breta var 3. júní við úrvalslið úr Reykjavíkurfélögunum. – Sigruðu Bretar með 9:0. Dómari var Guðjón Einarsson. Liðin voru þannig skipuð, Queen’s Park Rangers: - Reg. Allen markvörður; Dudley h. bakv.; Jefferson, v. bakv.; Smith. h. framv.; Chapman miðframv.; Heath v. bakv.; McEwan, h. úth.; Parkinson h. innh.; Durrant, miðframh.; Hatton v. innh.; Hartburn v. útherji.; ---- Reykjavíkurúrval: Anton Sigurðs., markv.; Karl Guðmundsson, h. bakv.; Hafst. Guðmunds., v. bakv.; Óli B. h. framv.; Birgir Guðjónss., miðfr.v.; Sæmundur Gísla., v. framv.; Ól. Hanness., h. úth.; Ari Gíslas., v. innh.; Magnús Ágústss., miðframh.; Sveinn Helgas., v. innh.; Ellert Sölv. v. úth.
 
2. leikur fór fram 6. júní og léku Bretarnir nú við Íslandsmeistarana, Fram. Bretarnir sigruðu með 6:1. Dómari leiksins var Guðmundur Sigurðsson.
 
3. leikur Breta var 9. júní við KR. Unnu Bretar leikinn með 5:0. Dómari var Þráinn Sigurðsson. Með KR léku Valsmennirnir Albert Guðmundsson og Sigurður Ólafsson.
 
4. leikur Breta var 11. júní við úrval úr Reykjavíkurfélögunum. – Unnu Bretar með 6:1. Dómari var Victor Rae. Albert Guðmundsson lék nú í úrvalsliðinu.
Íslenska móttökunefndin var skipuð þessum mönnum: Björgv. Schram, Guðjóni Einarssyni, Stefáni A. Pálssyni og Þorkeli Ingvarssyni.