Þróttur 1919 - Að læra af erlendum knattspyrnumönnum Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst

Heimsókn frá Akademisk Boldklub

 

Fyrir nokkrum árum var mikið rætt um það meðal knattspyrnumanna í Reykjavík að fá hingað erlenda knattspyrnumenn til að keppa við og læra af þeim þessa karlmannlegu flokka-íþrótt, sem Englendingar hafa iðkað marga mannsaldra og aðrar þjóðir hafa tekið upp og numið af þeim.

Komst það svo langt að knattsp.félögin “Fram” og “Reykjavíkur” kusu framkvæmdanefnd í málið. Úr framkvæmdum varð þó ekkert, mest vegna getuleysis og þess, hve fáir höfðu þá hug á knattspyrnu. – Þá skall heimsstyrjöldin á litlu síðar og kollvarpaði þessum fyrirætlunum knattspyrnumannanna eins og svo mörgu öðru er miðaði til þroska og framfara.

En nú hefir mál þetta verið tekið upp aftur og nú af Íþróttasambandi Íslands (Í.S.Í.). Er það svo langt á veg komið að hingað koma í sumar 14 menn úr danska knattsp.félaginu “Akademisk Boldklub”) ([Neðanmálsgr.] Þeir eru væntanlegir um miðjan júlímánuð og eiga að keppa hér alls 5 kappleika.)

 A.B. er eitt af elztu knattspyrnufél. í Danmörku. Það var stofnað árið 1885, og komst brátt í fremstu röð meðal knattsp.félaganna í Kaupmannahöfn. Er félagið mjög rómað fyrir snyrtilega framkomu sína og þá eigi síður fyrir snilli sína í knattspyrnu. Það var hið fyrsta félag sem kepti í knattspyrnu utan Danmerkur, og hefir ´siðan ferðast mjög víða og er nú orðið eitt að þektustu knattsp.fél. áhugamanna í Norðurálfunni.

Á þessu ári hefir félagið unnið einn af sínum glæsilegustu sigrum, var það í hinni árlegu keppni milli knattsp.fél. í Khöfn. Vann félagið 11 kappleika – af 12 – og hlaut 22 stig. A.Bskoraði mark 46 sinnum, en mótherjar að eins 15 sinnum. Er því A.Bnú sem stendur bezta knattsp.félag í Danmörku.

Það er eigi ennþá fullráðið hvaða lið félagið sendir hingað í sumar, en búist er við að valið verði meðal þessara manna: P. Berth, Sv. Knudsen, G. Aaby, Sv. V. Knudsen, G Nygaard, Erik Eriksen, Sv. Holm, Samúel Thorsteinsson, Ernst Petersen, P. Salby, Sv. Ringsted, Leo Fredreksen, Otto Moltke og Frigast Larsen.

Eru þetta alt þaulæflir knattspyrnumenn – og hver öðrum betri. Elztir af þeim eru P. Berth Sv. Knudsen og Ernst Petersen, sem hafa verið í þessari knattsp.sveit síðan árið 1910. – Umboðsmaður A.Bhér, hefir gefið Þrótti neðangreinda lýsingu af knattspyrnumönnunum:

P. Berth cand. phil. Er miðframvörður. Hann er einn hinn prúðmannlegasti knattsp.maður er Danir hafa nokkru sinni átt. Hann er snillingur í að “þvæla” og reka knöttinn og koma honum til framherja. Stundum smýgur hann einnig í gegnum varnarsveit mótherja og skorar mark. Berth hefir 17 sinnum tekið þátt í milliríkjakeppni, þ.e. verið í þeirri sveit er Danir hafa valið til að keppa við erlend knattspyrnufélög.

Sv. V. Knudsen cand. mag. er vinstri út-framherji. Hann er einn hinn vinsælasti knattspyrnumaður Dana. Er hann einkum frægur fyrir fjör og ákafa og óvenjulega lipurð. Hann er mjög lítill vexti, en þó eru stórir og sterkir bakverðir jafnan hræddir við hann, vegna dirfsku hans og snarræðis. Sjö sinnum hefir hann tekið þátt í milliríkjakepni.

Ernst Petersen cand. jur. er venjulega út-framherji, en hefir annars leikið á öllum stöðum á vellinum, nema í marki. Hann er ágætur knattreki og snarráður skotmaður. Fjórum sinnum hefir hann tekið þátt í milliríkjakepni.

Samúel Thorsteinsson stud.med. Hann hefir, eins og lesendum blaðsins er kunnugt, dvalið í mörg ár í Danmörku. Síðastl. sumar lauk hann fyrri hluta læknaprófs við Kaupm.hafnarháskólann með hárri 1. eink. Jafnframt námi sínu hefir hann iðkað knattspyrnu af miklu kappi og er hann nú í landsflokki Dana, en þangað koma að eins þeir allra fræknustu. Hann er hægri út-framherji sveitarinnar og er sérstaklega þekktur  fyrir sín snöggu áhlaup og snild í að reka knöttinn. Fjórum sinnum hefir hann tekið þátt í milliríkjakepni.

Sv. Ringsted cand. polyt. er vinstri bakvörður. Hann er allra manna fótfráastur og spyrnir knettinum lengra en flestir aðrir. Einu sinni hefir hann tekið þátt í milliríkjakepni.

G. Aaby stud. polyt. er hægri framvörður sveitarinnar. Hann er óvenulega hægfara og rólegur, en hefir þó hlotið góðan orðstír, því hann er allra manna gætnastur og vissastur. Sjaldan spyrnir hann knettinum meir en 10 stikur, en skilar honum ætíð nákvæmlega á þann stað, er hann á að koma á.

Sv. Knudsen cand. jur. er alveg andstæður Aaby. Hann er jötunn að afli, ákafur og fljótur. Tvisvar hefir hann tekið þátt í milliríkjakepni.

Erik Eriksen cand. phil. er mið-framherji sveitarinnar. Han er oft aðgerðarlítill á leikvellinum og leikur stundum illa, en þó er hann hættulegasti framherji sveitarinnar, og sá, er oftast skorar mark. Mótherjarnir vara sig sjaldan á honum; þegar minst varir hefir hann náð í knöttinn og kemst þá með hann í gegnum varnarliðið og spyrnir honum beint í mark. Þá er og Eriksen ágætur kollspyrnumaður og hefir oft sent knöttinn í mark – með höfðinu.

Sv. Holm stud. med. er lítill vexti en sterkur og harðger. Hann er mjög lipur knattreki og næsta þrautseigur.

Leo Fredreksen cand. jur. er vinstri bakvörður. Hann er manna hæðstur vexti og hefir það oftsinnis orðið til hjálpar, er í klípu var komið, við markið. Þá teygði Leó Fr. úr sér, tók knöttinn með höfðinu og senti hann burtu frá markinu.

Nygaard og Salby eru nýjir menn, sem hafa reynst mjög vel. Þeir eru báðir litlir vexti, en liprir og snarráðir framherjar.

Otto Moltke stud. polyt. hefir í mörg ár verið bakvörður og framvörður til skiftis. Hann leikur að mörgu leyti líkt og Berth, ætíð fimlega og prúðmannlega, aldrei ákaft né ruddalega. Auk þess er hann einn af fóthvötustu mönnum sveitarinnar.

Frigast Larsen er markvörður. Hann hefir leikið skamma stund, en hlotið hið bezta orð, og er nú af sérfróðum mönnum talinn mini verða bezti markvörður Dana.

Þannig hafa sjö úr A.Bnáð þeim heiðri, - sem mest er eftirsóttur meðal danskra knattsp.manna, - að mæta sem fulltrúi landsins í kepni við erlend knattsp.félög. Þetta sýnir að sveitin er sterk og vel æfð.

Þá hefir heyrst að prófessor Harald Bohr ætli að koma hingað í sumar með A.BMenn segja að hann eigi ekki sinn jafningja, hvorki sem stærðfræðingur né sem knattspyrnumaður. Að minsta kosti er hann óviðjafnanlegur í knattspyrnu.

Enskir atvinnumenn, sem þó höfðu ekki gert annað alla æfi en að keppa og horfa á knattspyrnu, urðu frá sér numdir af undrun, er þeir sáu leik Bohrs. Hann brýtur í bága við allar reglur og kenningar. Þegar hann rekur knöttinn, æpir fólk hástöfum af gleði. Hreyfingar hans eru svo óvæntar og óútreiknanlegar.

Í eitt skifti fékk hann tíu þúsundir manna til að æpa fagnaðaróp og klappa í tíu mínútur. Það var í miklum og tvísýnum kappleik við Englendinga, að Bohr rak knöttinn af mikilli snild fram hjá tveimur mótherjum. Fólkið var mjög hrifið. En nú hafði Bohr mist vasaklút sinn – og í staðinn fyrir að skora mark, snýr Bohr nú við, rekur knöttinn til baka og sleppur aftur fram hjá Englendingunum, nær vasaklútnum og rekur nú knöttinn í þriðja sinni fram hjá Bretanum, - sem stóð og glápti af undrun – og beina leið í mark. –

Eftir að hafa lesið framangreinda lýsingu á hinum væntanlegu knattspyrnumönnum, sýnast lítil líkindi vera til þess, að landsflokkur vor standi þeim snúning eða beri sigur af hólmi. Það hefir heldur aldrei verið aðalatriðið, heldur hitt, að læra af þeim sem mest, og sjá hve langt að baki við stöndum erlendum knattsp.mönnum. Þannig hafa Danir farið að; þeir hafa boðið til sín enskum knattsp. Mönnum og vitanlega tapað í fyrstu, meðan þeir voru að læra af þeim, en nú er svo komið að þeir eru álitnir beztu knattsp.menn meginlandsins.

Þar sem þetta er í fyrsta skiftið sem erlendum íþróttamönnum er boðið hingað til landsins, verða allir að kappkosta að þetta fari sem bezt úr hendi, því þessir menn bera hróður landsins víða.

Þetta mót í sumar sker úr því, hvort slíkt heimboð, sem þetta geur átt sér hér stað í framtíðinni. En hvernig svo sem þessi fyrsti milliríkjakappleikur okkar fer, þá mun hann glæða mjög íþróttaáhuga Íslendinga og með því er óneitanlega miklu náð.


(Í sama blaði):

 

Íþróttavöllurinn í Reykjavík hefir nú verið mikið lagfærður. Er búið að setja þar upp trépalla (stæði) og yfir 500 sæti, svo nú geta áhorfendur látið sér líða vel á vellinum, meðan á kappleiknum eða sýningum stendur.

 

Hefir “heimboðsnefndin” séð um þessar umbætur með aðstoð góðra manna og bæjarstjórnar Reykjavíkur, sem hefir veitt úr bæjarsjóði 2000 kr. til Íþróttavallarins og vegarins þangað suður eftir.