Þróttur 1919 Grein eftir A.V. Tulinius Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Ekki voru allir alls kostar sáttir við aðstæðurnar á Melunum. 

Eftirfarandi grein eftir Axel. V. Tulinius, stofnanda Skautafélags Reykjavíkur, birtist í öðru tölublaði fréttabréfsins Þróttar árið 1919. 

Í greininni kvartar hann undan ófullnægjandi aðstæðum á Íþróttavellinum, sem var ósléttur malarvöllur. Hann stakk því upp á því að bærinn keypti land sunnan við bæinn Laufás (á horni Laufásvegar og Bragagötu) eða land Eggerts Briem, sem bjó í Viðey, kæmi þar upp fullnægjandi íþróttaaðstöðu fyrir almenning:

Leikvellir

Eitt af því sem gerir Reykjavík óvistlegri en aðra bæi á Íslandi, er, hve ófrjósamt er í kringum bæinn. Skógar og fagrir grasivaxnir hvammar, eru hvergi í námunda við höfuðstaðinn.

Alstaðar í hinum mentaða heimi þar sem líkt er ástatt, sér bæjarstjórnin um að bæta úr þessu með því að leggja land undir trjágarða og almenninga handa bæjarbúum, þar sem þeir geta dvalist sér til skemtunar, og andað að sér heilnæmu lofti í frístundum sínum: -- vor, sumar og haust og jafnvel á vetrin. – Hér hefir lítið verið gert í þessa átt. – Melarnir eru notaðir hér sem íþróttavöllur, enn það er vafamál hvort hollustan, sem fylgir líkamsæfingunum, vegur upp á móti óhollustunni af ryki því, sem íþróttamennirnir anda að sér. Um það verða læknarnir að dæma, en ég er hræddur um, að ágóðinn verði lítill. – Hvergi annarsstaðar eru íþróttir iðkaðar nema á grasi, enda er allsstaðar í íþróttareglum erlendis tekið fram, að völlurinn sé sléttur, láréttur grasvöllur. – Mín tillaga er því að bærinn – áður en hann er búinn að ráðstafa eða selja meira land en nú er gert, úr Vatnsmýrinni, leggi til graslendi sunnan við Laufás – eða kaupi land Eggerts Briem, til þess – nægilega stórt fyrir almenning og íþróttavelli og búi síðan út völlinn á viðeigandi hátt. Mundu allir bæjarbúar verða bæjarstjórninni þakklátir fyrir þetta, og enginn horfa í þá peninga sem það kostaði. Það mun samt áður en langt um líður reka að því, og þá er verra við að eiga, ef þarf að rækta upp tún úr melunum eða holtunum. Bærinn gæti líklega í staðinn fengið Íþróttavöllinn og notað hann fyrir loftskeytastöð eða annað. Mér þætti vænt um að menn vildu athuga þetta mál og leggja því liðsinni, og eg skora á blöðin að taka það mál á dagskrá.
 
A.V. Tulinius.“


 
Þróttur 1. mars 2. ár 2. tbl.


Þessi grein, - formanns Í.S.Í. – var rituð 1916, og þar sem henni hefur verið lítill gaumur gefinn, birtist hún hér.
 
Nú kemur það bezt í ljós hve illa vér R.víkingar erum staddir í þessu efni, ef t.d. skortur á sæmilegum leikvangi, verður þess valdandi, að ekkert verður úr fyrirhugaðri för dönsku knattspyrnumannanna hingað. – 
Allir vita hvað Íþróttavöllurinn á Melunum er óvistlegur! hann er varla boðlegur okkar egin íþróttamönnum, auk heldur erlendum íþróttasnillingum. 
 
Finst mönnum það sæma höfuðstað ríkisins, að eiga eigi völ á sæmilegum leikvangi?

Ritstj.
Benedikt G. Waage