Þróttur 1922 - Um knattspyrnu og knattspyrnumenn Skoða sem PDF skjal Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst
Þróttur 17. júní 1922, 5. ár, 4. tbl.

Um knattspyrnu
og knattspyrnumenn

„Þróttur“ hefir átt tal við Mr. Tempelton, skoska knattspyrnukennarann sem knattspyrnufélög hér í bæ hafa fengið sér til leiðbeiningar. Hann hefir nú dvalið hér um nokkurn tíma og orðið ýmsu vísari. Það sem hér fer á eftir hefir hann skýrt munnlega frá og er ritstjóranum um að kenna ef rangt er upp tekið

-----

Afbragðs knattspyrnumaður verður engi sá, sem ekki hefir hæfileika til þess frá náttúrunnar hendi. Þeir, sem vilja verða leiknir í þessari íþrótt verða að byrja þegar á unga aldri. Um sjálfan mig er það að segja, að jeg byrjaði að leika með knött áður en jeg man nokkuð eftir mér.
Það, sem fyrst vakti athygli mínna hér í Reykjavík, er geðprýði sú og umburðarlyndi, sem kemur fram hjá þátttakendum, þótt þeir hvað eftir annað verði fyrir ólöglegum bakárásum og falli til jarðar á óþægilegan hátt. Eg hygg að Skotar myndu skifta skapi. Knattspyrna hjer er leikin í líkum stíl og var í Skotlandi fyrir æva löngu, þegar lítill munur var gerður á mönnum og knettinum. En nú á dögum er það aðeins knötturinn sem menn eiga að sparka og leika með.
Í þeim tveimur kappleikjum, sem jeg var dómari, hafði jeg hvað eftir annað ástæðu til að ákveða vítisspyrnu, sérstaklega fyrir bakverðina, sem þráfaldlega ráðast á manninn í staðinn fyrir knöttinn. Næsta skifti mun ég verða strangari í þessu efni, því að nú vita menn, að slíkur leikur er vítaverður.
Eitt er það sem knattspyrnumenn hér verða að venja sig af, og það er að sparka knettinum með tánni á stígvélinu. Það sýnir litla list og er ljót, höggvandi hreyfing, en slíkar hreyfingar eiga ekki að sjást í knattspyrnu.
Góður knattspyrnumaður verður að geta teki knöttinn í hvaða aðstöðu sem er. Eg á þar við, að mönnum veitist auðveldur leikur á hvaða hátt sem knötturinn kemur. En það fæst með skjótri dómgreind, sem sér í einni hending hverja afstöðu best er að taka.
Þegar knötturinn er tekinn með höfðinu, eiga menn að hlaupa í loft upp með opin augun og líkamann beinann, en ekki kreptir með höfuðið langt niðri milli herðanna. Menn finna ekki til ef þeir hlaupa upp á móti knettinum en menn geta oft fengið óþægileg högg ef þeir standa og bíða eftir honum. 
Einn galli sem mikið ber á hér, er einstaklingsleikur og ofmikið af spörkum út í bláinn og hugsunarlaust. Hver flokkur á að auka sem mest samleik einstaklinganna og hver einn af þeim á ætíð að geta vitað hvað annar samherji ætlar að gera og taka afstöðu eftir því. Hér sparka miðverðirnir (halfbacks) venjulega þangað sem þeir halda að framverðir sínir séu. Þeir sparka og oft alt oflangt og gefa með því bakvörðum mótstöðuflokksins tækifæri til þess að leika oftar með knöttinn en þörf er á. Miðverðirnir eiga ætíð að hafa gætur á, að framsækjendur þeirra geti tekið við knettinum. Þeir eiga að geta sjeð afstöðuna í einni svipan og vita nákvæmlega þegar hæst fer, hvert best er að sparka knettinum. Þetta verður að gerast umhugsunarlaust, því að mönnum veitist aldrei umhugsunarfrestur í knattspyrnu.
Mið-framverðir hér eru allgóðir. Þeir verða að vísu að reiða sig talsvert á framverðina sitt til hvorrar handar, ytri og innri. Mér þykir innri-framverðir ekki hafa nógu breytilegan leik. Þeir gera hið sama aftur og aftur. Afleiðing þess er að þeir sparka knettinum ætíð til sama mannsins, oftast til þess sem næstur þeim er, í stað þess að sparka knettinum yfir þveran völlinn, yst til sinna manna, þar sem ef til vill er lítil mótstaða. Þetta er venjulega bestur leikur og gerir oft vörn að engu. Ystu framverðir verða að læra að sparka knettinum inn á miðjan völl af meiri nákvæmni en þeir gera nú og á rjettum tíma. Auðvitað verða þeir að reiða sig mikið á innri framverði. Hjer fær ysti framvörður oft knöttinn þegar hann ætti alls ekki að fá hann. Það er að segja þegar að bakverðir eða miðverðir mótstöðuflokksins eru í kringum hann. Hér þurfa menn líka að læra að sparka betur úr horni en nú er gert.
Markverðir hér eiga margt ólært. Markverðir eiga ætíð að hafa aðstöðu sinni eftir hreyfingum og aðstöðu framvarða mótstöðuflokksins. Þeir verða að geta gripið knöttinn og haldið honum, en hér viðgengst að markverðir missa knöttinn oft úr höndum sér. Slíkt eru alvarleg mistök sem haft geta hættulegar afleiðingar. Hér tíðkast að bakverðir sparki knettinum úr marki eða hjálpi markverði með því að lyfta fyrir hann knettinum. 
Í Skotlandi og Englandi sparka allir markverðir aðstoðarlaust knettinum úr marki enda hygg ég að bakverðir þar mundu þykjast annað þarfara hafa að gera en að veita aðstoð sína til slíks.
Bakverðir hafa þann stóra galla að þeir geta ekki sparkað með báðum fótum jafnt. Þetta má að vísu laga með talsverðri iðkun. Þeir þurfa einnig að venja sig á að leika liðlegar en þeir gera, og beinast meira að knettinum en manninum sem með hann er.
Hér æfa menn knattspyrnu á alt annan hátt en ég hef vanist. Hér hefir hvert félag æfingar þrisvar í viku. Í Skotlandi og Englandi iðka menn þannig að þeir hafa knattspyrnuæfingar aðeins einu sinni í viku, en hina daga vikunnar, aðra en föstudaga, eru allir látnir iðka hlaup eða göngur. Hér heyri ég sagt að fáir knattspyrnumenn iðki hlaup sérstaklega, þótt það sé fyrsta skilyrðið til þess að verða góður knattreki. Mér finst menn ekki æfa sig nógu alvarlega hér og að talsverð lausung sé í allri iðkun íþróttarinnar.
Hér er til dæmis algengt að menn koma í hópum út á völl til þess að taka þátt í æfingum, án þess að vera búnir þeim klæðum sem við eiga. Þeir koma í þeim fötum, sem þeir ganga í á götunni. Engi getur búist við að verða góður hlaupari, sem æfir sig fullklæddur. Þegar lokið er æfingum eiga menn annað hvort að fá sér bað eða þurka sig allan með grófgerðu handklæði. Þetta er mjög vanrækt hér.
Knattspyrnan er sú íþrótt, sem þarfnast langrar og réttrar iðkunar. Gaumgæfileg athygli um réttan leik og önnur aðferð um æfingar en nú er höfð, er fyrsta skilyrðið fyrir framförum knattspyrnunnar hér í Reykjavík.